145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[16:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er skemmtileg tilbreyting í þessum þingsal að inn komi einhver úr stjórnarmeirihlutanum og blandi sér í umræður. Því miður gerist allt of lítið af því.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, við erum í pólitík og ég vil árétta að ég er ekkert endilega talsmaður hárra skatta. Ef við höfum efni á að hafa skatta lága skulu þeir vera lágir en við þurfum náttúrlega að eiga fyrir þeim nauðsynjum sem við viljum fjármagna úr sameiginlegum sjóðum. Það skortir mjög á, því miður, að þannig sé þessa dagana.

Ég vil líka segja það alveg klárlega að ég er á móti því að einfalda skatta. Ég er sérstaklega á móti því að einfalda tekjuskatta. Ég vil að tekjuskattskerfið sé þrepaskipt vegna þess að það eykur á tekjujöfnunarhlutverk og mátt tekjuskattskerfisins og þess vegna vil ég hafa það þannig.

Ég vil líka segja varðandi það sem kemur fram hér og hv. þingmaður segir, þetta er best fyrir lágar tekjur og millitekjur. Þetta er ekki nógu gott fyrir lægstu launin, þetta er ekki nógu gott fyrir þá sem lifa á bótum. Ég átti í andsvari við hæstv. ráðherra um það. Það getur vel verið að það sé eitthvert millispil á milli útsvars og tekjuskatts, (Forseti hringir.) það bara skiptir ekki máli. Þetta er ekki nóg fyrir þá sem eru lægstir og við þurfum að breyta kerfinu þar og ég vil halda þremur þrepum.