145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að ég tel að þessar breytingar á skattkerfinu séu til m.a. þess fallnar að koma til móts við lágtekjufólkið, lækkun skattþrepsins úr 24,10% niður í 22,5%, sem og að brottfall skattþreps númer tvö komi til góða fyrir þá sem eru í millitekjuhópnum.

Hvað varðar tolla á landbúnaðinn sagði ég áðan í ræðu minni að ég væri ein þeirra sem vildu gjarnan að farið væri að skoða bæði verndartolla og magntolla og ég tel að það eigi að lækka þá í krónutölu. Ég vil hins vegar að við tökum umræðu um landbúnaðarkerfið í heild sinni um þá styrki sem eru til landbúnaðarframfærslu per se — ég biðst afsökunar á slettunni, virðulegi forseti — og við ræðum það í þessum sal og í samtali við fólkið í landinu, hversu mikið það vill standa vörð um íslenskan landbúnað. Er það tilbúið til þess í þessu ríksisrekstrarkerfi eða með einhverjum verndartollum? Mér finnst það ekki vera einkamál, hvorki mitt né annarra þingmanna (Forseti hringir.) að taka þá ákvörðun.