145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hlaut að koma að þessu með veiðigjöldin og þess háttar. Engu að síður er nú staðreyndin sú að aldrei hafa verið innheimt hærri veiðigjöld í krónutölu en í tíð þessarar ríkisstjórnar, aldrei, svo það sé sagt. Ef vinstri mönnum finnst alltaf í lagi að skattleggja í botn það sem gengur þokkalega til að geta gert eitthvað annað þá er ég ósammála þeirri pólitík. Það er bara þannig. Ég vil að þeir sem búa í þessu landi og greiða til samneyslunnar fái úr henni óháð efnahag og búsetu, jafnt úr menntakerfinu sem og heilbrigðiskerfinu. Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf talað og það er engin breyting þar á og hefur ekki verið. Við höfum alltaf sagt um heilbrigðiskerfið (Forseti hringir.) að það eigi að vera óháð efnahag og búsetu og fjármagnað af skattfé. (Forseti hringir.) Við erum hins vegar tilbúin til að treysta öðrum en hinu opinbera til að reka hluta heilbrigðiskerfisins.