145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Formaður þingflokks sjálfstæðismanna er stríðsmaður eins og hún á kyn til. Hér á hinum síðustu árum hafa tíðkast mjög samræðustjórnmál og það hefur verið í tísku að tala um að menn þurfi að eiga samtal og það þurfi að leiða allan ágreining i jörð. Þetta hefur verið tískan hjá allt of mörgum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum á síðustu árum. Hvað hefur það leitt til? Það hefur leitt til þess að a.m.k. síðustu árin og missirin hefur aldrei verið jafn mikill ágreiningur á Alþingi Íslendinga og í stjórnmálunum almennt og ekki bara það, með samræðustjórnmálum hafa menn með vissum hætti máð útlínur stjórnmálaflokkanna þannig að fyrir stórum hluta þjóðarinnar er þetta allt sama tóbakið.

Ég kem aðallega hingað upp til að lýsa aðdáun minni á hv. þingmanni sem stakk hér niður gunnfána fyrir hönd okkar sem ekki erum trúuð á það að samræðustjórnmál séu besta form stjórnmála. Ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði að heiðarlegur ágreiningur þar sem kristallaður er fram munur milli flokka leiðir til bestu niðurstöðu þegar til lengri tíma er litið. Átök um hugmyndir, samkeppni hugmynda, átök á milli pólitískra stefna og skoðana; það er það sem hefur þrátt fyrir allt gert Ísland að því samfélagi sem það er í dag og er prýðilegt og er ágætissamfélag þar sem menn hafa tekist harkalega á um ólíkar stjórnmálastefnur og úr því hefur orðið einhvers konar niðurstaða sem við getum öll unað vel við.

Þetta var bara erindi mitt hingað, að taka undir með hv. þingmanni að við eigum á Alþingi Íslendinga að reyna að skilgreina okkur og þá stefnu sem við stöndum fyrir en ekki leggja okkur endilega alltaf fram um það að má út ágreininginn. Ágreiningur á rétt á sér.