145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kann því ágætlega að menn taki hér aðeins rispur um grundvallarpólitík og séu ekki feimnir við það að menn hafi ólíka afstöðu til hlutanna eftir því hvaða lífssýn og viðhorf þeir hafa og til stjórnmálanna. Mér er nær að halda að við séum á nokkrum tímamótum með þessari málafylgju hæstv. fjármálaráðherra því að hér er hjólað í þrepaskipta tekjuskattinn og lagt til að lögfesta í einu lagi breytingar á honum, sem koma að vísu til framkvæmda á tveimur árum. Kannski er það gert til að þurfa ekki að vera með lokahnykkinn á því á kosningaári. Ég er ekki hrifinn af þessum breytingum svo það sé sagt umbúðalaust og strax.

Það er alveg ljóst að strax með því að fara úr þremur þrepum í tvö tapast hluti af tekjujöfnunargildi tekjuskattsins. Fylgiskjöl málsins bera það með sér, greinargerð frumvarpsins, taflan á bls. 12 sem margir hafa vitnað hér til. Að vísu er efra þrepi haldið. Við eigum kannski að þakka fyrir það, ríkisstjórnin er þá ekki svo forstokkuð, eins og stjórn sömu flokka var á árunum 2003–2007, að fella með öllu niður sérstakt tekjuskattsálag á hæstu laun. Það sem þá var gert var náttúrlega með þvílíkum endemum enda fór nýfrjálshyggjan ekkert með veggjum á þeim tíma eins og hún gerir svolítið núna. Þetta er sama stefnan. Það er nýfrjálshyggjustefna í skattamálum að fletja út skattkerfið. Þetta er að vísu allt í voðalega fínum umbúðum, silkimjúkum umbúðum, „einfalda skattkerfið“, „létta byrðum af fólki“. En hvernig kemur þetta niður? Þetta kemur þannig niður, eins og hér er sýnt fram á, að ávinningurinn vex eftir því sem tekjurnar eru hærri og meira að segja hæsti hópurinn fær þrefalda lækkun á við þá tekjulægstu.

Þetta er þó ekki nema einn angi þess samhengis sem þarf að ræða þessa hluti í. Það eru ráðstafanir af ýmsum toga sem núverandi ríkisstjórn stendur fyrir og hæstv. fjármálaráðherra hælir sér jafnan af þegar hann kemur hingað í ræðustólinn og talar um hvað sé dásamlegt að fella niður vörugjöld, að lækka tolla, að lækka tekjuskatt, að lækka auðlegðarskatt, að lækka veiðigjöld, að fella niður orkuskatt. Það er alltaf sama ræðan í öll skiptin en það safnast þegar saman kemur.

Ég var að glíma við að leggja saman í viðbót við það sem kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins, kostnaðarumsögn um þetta frumvarp, hvar þetta er núna á vegi statt. Ýmsir hafa nefnt hér tölur. Hér er um að ræða rétt tæpa 15 milljarða kr. fyrir borð, allt í voðalega góðum umbúðum, „einfalda“ og „létta byrðum af“ 700 þús. kr. fólkinu. Við það má bæta 5 milljörðunum á þágildandi verðlagi sem lækkun miðþrepsins í fyrra fór fyrir borð. Ef ég man rétt þá var nettótekjutap ríkisins af niðurfellingu vörugjaldanna og tengdra breytinga á móti hækkun matarskattsins milli 5 og 6 milljarðar vegna þess að hækkun matarskattsins vó ekki upp tekjutapið af lækkun efra þrepsins í virðisaukaskatti og niðurfellingu vörugjalda. Segjum 6 milljarðar þar. Auðlegðarskatturinn gæfi að lágmarki 10 milljarða núna og sennilega meira ef hann væri lagður á óbreyttur því að auðurinn hefur aukist mjög hratt. Segjum að 5 milljarðar séu fyrir borð í því sem væru mjög hófleg veiðigjöld miðað við afkomu sjávarútvegsins í dag og 2 milljarðar fari út með orkuskattinum. Þetta eru 42–43 milljarðar tæpir, bara lagt saman svona. Menn leiðrétta mig þá ef þeir telja að hér sé farið eitthvað rangt með. Það eru býsna miklir peningar. Það er liðlega 2% af vergri landsframleiðslu. Það eru tæp 6% af niðurstöðutölu fjárlaga nú um stundir, jafnvel milli 6% og 7%. Það eru talsverðir peningar, það munar um þá.

Það sem fjármálaráðherra er að gera er ósköp einfalt. Þar sem þenslan er að skapa tímabundið verulegan afkomubata hjá ríkissjóði og þeir tekjustofnar sem höfðu verið styrkir á síðasta kjörtímabili gefa eðlilega meira af sér þegar hagkerfið vex og hinir sjálfvirku margfaldarar koma til sögunnar þá getur hann gert þetta án þess að ríkisfjármálin fari á hliðina. Er það ábyrgt? Er það skynsamlegt? Ég tel svo ekki vera. Ég ætla auðvitað að vona að það lendi enginn fjármálaráðherra eftir nokkur ár í þeirri stöðu að taka aftur við Íslandi í rústum þar sem hagkerfið hefði hrunið og tekjurnar gufað upp eins og dögg fyrir sólu, sérstaklega hinar ótraustu tekjur sem flæða inn vegna þensluástands í hagkerfinu. Hér er einmitt verið að veikja hina stöðugu, traustu tekjustofna sem verða að vera undirstaða velferðarkerfisins að verulegu leyti ef menn ætla ekki að draga það sundur og saman eins og harmonikubelg eftir því hvernig árar í hagkerfinu. Það er ekki gott fyrir velferðarsamfélag að búa við slíkan óstöðugleika vegna þess að öryrkjar og aldraðir þurfa líka að lifa á erfiðum tímum og vegna þess að við þurfum líka að reka samfélagið þegar á móti blæs og ekki síður þá.

Mantran sem er flutt í þessum efnum er að létta byrðum af og einfalda. Einföldun á skattkerfinu eru nú ekki merkileg rök vegna þess að það er ekki frummarkmið og meginmarkmið skattkerfis að vera bara einfalt. Meginmarkmiðið er að skattkerfið sé sanngjarnt, að það sé réttlátt, að það dreifi byrðunum með réttlátum hætti og þeir borgi sem hafa getu til þess en hinum sé hlíft. Það er meginmarkmið skattkerfis, að afla tekna til samneyslunnar með sanngjörnum hætti. Auðvitað á skattkerfið svo að vera skilvirkt. En það næst engin sanngirni og réttlæti fram með reglustiku, það er ekki þannig, með flötum strikum í skattkerfið. Þá fara fyrir borð þau markmið um sanngjarna dreifingu byrðanna sem menn eru auðvitað að leitast við að ná fram, alla vega þar sem félagsleg hugsun er einhvers staðar í nágrenni við menn þegar þeir móta stefnu í þessum málum. Niðurstaðan verður að menn verða að sjálfsögðu að leita málamiðlana milli þess að hafa skattkerfið ekki óhóflega flókið, að hafa ekki í því erfiðleika af því tagi, að jaðaráhrif séu ekki ósanngjörn o.s.frv. og hins að ná fram þeim sanngirnismarkmiðum um dreifingu skattbyrðarinnar sem rétt hugsandi fólk hefur auðvitað augun á.

Til hvers eru skattarnir? Þegar fjármálaráðherra kemur hingað með silkiræðurnar sínar um að létta byrðum þá er aldrei minnst á hina hliðina. Skattkerfið er til þess að veita nauðsynlega opinbera þjónustu. Það er til að tryggja þeim kjör sem verða að reiða sig á samfélagið um sína afkomu. Það er til þess að fjárfesta í innviðum samfélagsins og búa í haginn fyrir framtíðina. Sú stefna sem hér er teiknuð upp er ekki síst óábyrg vegna þess að í reynd veltir hún byrðunum á framtíðina — hún gerir það, fjármálaráðherra.

Þessi ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára veldur mér ekki síst vonbrigðum vegna þess að mér finnst Ísland strax vera farið að gefa eftir á hinum siðferðilega grundvelli. Við ætlum okkur bara að hafa það gott og þægilegt hérna næstu árin. Vissulega erum við ekki að reka ríkissjóð með halla en við erum heldur ekki að greiða niður skuldir svo að neinu nemur að nafnvirði. Við erum ekki að ráðast í löngu tímabærar og brýnar fjárfestingar í innviðum samfélagsins, sem við urðum auðvitað að draga talsvert við okkur á erfiðustu árunum. Hvað þýðir það að vegirnir grotni niður, húsnæði hins opinbera grotni niður? Það þýðir að það verður að laga vegina seinna og þá þurfa einhverjir að borga það en ekki við núna eða á næstu árum. Við höfum það bara gott og eigum að gleðjast yfir því hvað fjármálaráðherrann sé nú hjartagóður maður að ætla að létta af okkur byrðum.

Hvaða ástæða er til þess að hafa í sömu setningunni hól um það hvað laun séu að hækka mikið á Íslandi, hvað hagur manna sé að batna í gegnum uppgang í hagkerfinu og létta sérstaklega af mönnum sköttum og það jafnvel hinum tekjuhærri? Þetta er nefnilega pólitík. Ef eitthvað er stjórnmál og pólitík þá er það þetta. Þess vegna er gott að við ræðum þetta alveg velgjulaust. Í raun og veru er langmesta pólitíkin fólgin í myndunum sem eru í fyrra hefti fjárlagafrumvarpsins, sem sýna þróunina meira að segja inn á næsta kjörtímabil, samanber ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára.

Á bls. 91 og 92 í litla heftinu er fjallað um þróun frumgjalda ríkisins án óreglulegra liða út áætlunartíma ríkisfjármálaáætlunar. Hvað sýnir sú mynd okkur? Það hefur orðið breyting á til hins verra, meira að segja frá áætluninni í vor. Þá var sagt, vissulega var það viðurkennt, að frumgjöld án óreglulegra liða ætti að lækka um 1% af vergri landsframleiðslu á áætlunartímanum. Nú er búið að bæta í og sagt að það verði heldur meira eða 1,2% af vergri landsframleiðslu. Það eru talsverðir peningar á tímum þegar landsframleiðslan er að nálgast 2.000 milljarða. Þetta þýðir að þessi mikilvæga mælistika sem er kannski sú einstaka mæling sem segir okkur mest um það hvar velferðarsamfélag á Íslandi er á vegi statt, borið saman við aðrar Norðurlandaþjóðir. Það segir okkur það að frumgjöld án óreglulegra liða, þ.e. rekstrarkostnaður ríkisins án vaxtakostnaðar og óreglulegra liða, verða kominn niður undir 23% af vergri landsframleiðslu í lok áætlunartímans í staðinn fyrir að vera 26–28% að meðaltali á umliðnum 10–15 árum eða svo. Það er verulega annað samfélag en ég held að stærstur hluti þjóðarinnar vilji búa í. Það er augljóst mál að við drögumst á nýjan leik aftur úr öðrum Norðurlandaþjóðum og verðum með veikara velferðarkerfi og óburðugra á allan hátt ef þetta verður niðurstaðan. Þetta gerist hægt og hljótt og í gegnum meðal annars þessar fínu skattbreytingar sem hæstv. fjármálaráðherra er alltaf að boða og hæla sér af. Það safnast nefnilega þegar saman kemur. Það munar um 43 milljarða að nafnvirði sem samtals er þá verið að veikja tekjuöflun ríkisins um. Efnahagslega held ég að þetta sé heldur ekki skynsamlegt og til að taka nú af allan vafa um það að ég geti vel séð fyrir mér að suma skatta eigi að lækka þá hefði ég gjarnan viljað sjá eitthvað af þessu svigrúmi fara í lækkun á tryggingagjaldinu. Ég skil ekki þá ráðstöfun að skilja það alveg eftir en fara frekar út í hluti eins og þessa. Ég skal þá bara vera sá eini sem þorir að segja það. Ég hoppa ekkert upp úr skónum þó að einhver vörugjöld séu felld niður, ég bara geri það ekki. Það er ágætt að geta endurskoðað það og sumt af því má gjarnan missa sig en ég hefði þá viljað sjá tekjuöflun á móti. Ég hefði viljað að menn segðu: Þetta er ekki góður skattstofn, það eru vandræði að vera með þessi vörugjöld og þau bjaga hlutina. Við skulum leggja þau niður en tökum þá aðeins meira inn annars staðar.

Allar breytingar hæstv. fjármálaráðherra að heita má með einni undantekningu, þ.e. hækkun matarskattsins, eru gerðar á kostnað tekjutaps ríkissjóðs. Öllum markmiðum í skattamálum sem ríkisstjórnin hyggst ná fram mætir hún með einföldum hætti, hún minnkar tekjur ríkissjóðs. Það gengur í gegnum allt eins og rauður þráður og leiðir af sér þá niðurstöðu að velferðarsamfélagið á Íslandi mun standa mun veikar að vígi ef þetta verður þróunin út áætlunartímann, komin niður undir 23% af vergri landsframleiðslu sem við höfum til að reka velferðarsamfélag á Íslandi. Gjöldin fara hins vegar ekki jafn langt niður. Það er blekkjandi að horfa á þá mynd vegna þess að vaxtakostnaðurinn heldur þeim því miður hærra uppi og heildargjöld verða sjálfsagt um 25% af vergri landsframleiðslu í enda áætlunartímans.

Er þetta ekkert rætt innan stjórnarflokkanna? Það vill svo vel til að það er einn framsóknarmaður hérna þó að enginn þeirra hafi, held ég, tekið þátt í umræðunni. (Gripið fram í: Tveir.) — Nú, tveir meira að segja, hvað er þetta, við erum bara vel sett. Var þetta ekkert rætt í stjórnarflokkunum? Hefur stóra myndin aldrei verið tekin fyrir í samstarfi þessara ríkisstjórnarflokka? Ætlar Framsóknarflokkurinn að láta Sjálfstæðisflokkinn leiða sig algerlega meðvitundarlausan í mark, heim í Valhöll í skattamálum og áherslum í ríkisfjármálum? Það er það sem hér er verið að gera.

Nú skal ég taka það fram að vissir hlutir í þessu frumvarpi eru ágætir og bandormurinn er langt frá því að vera það ófélegasta sem hér hefur sést. Satt að segja sleppur hæstv. fjármálaráðherra tiltölulega vel miðað við ýmislegt sem aðrir hafa neyðst til að leggja fram í frumvörpum af þessu tagi. Ég tel til dæmis breytinguna með áfengið vera skynsamlega. Mér sýnist skynsamlegt að færa áfengið niður í lægra þrep og hækka áfengisgjöldin á móti. Ýmislegt fleira sem hér er á dagskrá er að sjálfsögðu ekki þannig að um það þurfi að standa stór ágreiningur, en mér finnst tímabært að við förum að taka hérna eina og eina ræðu um stóru myndina í þessu og grundvallarpólitísku atriðin sem hér eru á ferðinni (Forseti hringir.) svo að nýfrjálshyggjan fái ekki að læðast eins og mús aftan að okkur á þessum tímum. Hún fer meira með veggjum en hún gerði þegar hroki hennar var mestur en því miður er hún (Forseti hringir.) enn leiðarljósið.