145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir nokkuð skelegga og kraftmikla ræðu hér um stóru myndina og fagna því sérstaklega að fá tækifæri til að ræða hana. Það var til dæmis vel þegið að hér var tekið saman í ræðunni að við höfum verið að létta af sköttum og gjöldum upp á um 40–50 milljarða. Ég ætla að halda því til haga hér að að hluta til er þar um að ræða tímabundna skatta sem eiga rætur sínar að rekja til fyrri ríkisstjórnar og hún sagði alltaf að ættu að vera tímabundnir skattar. Mér finnst því holur hljómur í því þegar menn koma hingað og harma það sérstaklega að þeir skuli ekki hafa verið framlengdir.

Ég ætla einnig að minna á það að ný ríkisstjórn hækkaði bankaskattinn um um það bil þessa tölu, 40 milljarða, og bjó þannig til svigrúm til að loka fjárlagagatinu, létta byrðum af heimilum og atvinnulífi og sækja meira fé inn í fjármálakerfið og sérstaklega í slitabúin.

Má ég benda á það líka að frumjöfnuður er einhver sá mesti í Evrópu á Íslandi. Það er ekki meiri frumjöfnuður í einu einasta Evrópusambandsríki. Samt tala menn hér um að það þurfi enn að hækka skattana. Það er eins og þeir sjái ekki að okkar vandi liggur á skuldahliðinni. Hann liggur ekki því hér skili skattar sér ekki í eðlilegu samræmi við það sem er að gerast í samfélaginu, bara alls ekki. (Gripið fram í.)

Þeir sem tala með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði hér eru að kalla eftir því að frumgjöldin verði aukin, frumgjaldastigið hækkað, að við aukum meiru við samneysluna og bætum meiru við á herðar þeirra sem við erum að létta sköttum af. Já, það er skýr pólitískur ágreiningur um þetta og það er bara sjálfsagt að ræða hann. Í þessu frumvarpi erum við að afnema neysluskatta sem halda uppi of háu verðlagi, sem draga úr samkeppnishæfni verslunarinnar, eru greiddir af launþegum, bæði þeim sem eru neðst og í miðjum og efst í launastiganum og hlutfallslega mest af þeim sem eru með minnst milli handanna og lægst launin. (Forseti hringir.) Verkefni okkar á að snúast um það að lækka skuldir og halda álögum eins lágum og við getum. Já, við þurfum að hafa innviðina í lagi en við erum í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) að bæta við frumgjöldin að nafnvirði og við erum að bæta í bætur.