145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að ýmsar ráðstafanir í öndverðri kreppunni eða eftir hrunið voru tímabundnar eða settar fram með tímabundnum hætti. Þær voru lögfestar til tveggja, þriggja ára, síðan sumar framlengdar og gerðar varanlegar. Þetta var meðal annars gert vegna þess að menn voru auðvitað að grípa til þeirra ráðstafana í mikilli óvissu og í miðju svartholi hrunsins. Strax í fyrstu ríkisfjármálaáætlun vorið 2009 var þó tekið fram að þær tekjuöflunaraðgerðir, hvort sem þær væru tímabundnar eða varanlegar sem ráðist var í, væru þannig hugsaðar að ef einhverjar þeirra hyrfu úr sögunni þá þyrftu aðrar jafn gildar aðgerðir að koma á móti. Þannig voru áætlanirnar alltaf endurskoðaðar allt til haustsins 2012 að ef einhverjar tímabundnar tekjuöflunarráðstafanir dyttu niður þá yrðu að koma jafn gildar áætlanir á móti, annaðhvort í nýrri tekjuöflun eða sparnaði til þess að áætlunin héldi. Þetta er rétt að hafa í huga.

Hér er ekki verið að krefjast þess að menn hækki skatta, það er misskilningur hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það er verið að deila um það hvort skynsamlegt sé að lækka þá svona mikið og að gera það svona, hvar eigi að bera niður og í hve miklum mæli. Ég gæti vel sætt mig við það að vel útfærðar breytingar í skattkerfinu, t.d. að talsverðu leyti lækkun tryggingagjalds og að einhverju leyti breytingar sem hefðu komið hinum tekjulægstu sérstaklega til góða, kostuðu í þeim skilningi ríkissjóð kannski þriðjung eða helminginn af þessu, ef við mættumst bara á miðri leið og segðum sem svo: Í staðinn fyrir að vera búin að missa tekjur upp á 43 milljarða plús, þá værum við með kannski helminginn af þeim enn þá inni. Hvað gætum við ekki gert fyrir um yfir 20 milljarða, hvort sem væri í fjárfestingum, í innviðum, velferðarmálum eða öðru slíku?

Ég held að það sé líka efnahagslega og hagstjórnarlega óskynsamlegt að ríkið slaki á með þessum hætti. Það er betra upp á þensluna að halda meiri tekjum hjá ríkinu og ráðstafa þeim (Forseti hringir.) með meðvituðum hætti vegna þensluástands, heldur en bara lækka skattana.