145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem við erum að gera er að við erum að létta undir með fólki, millitekjufólki og reyndar alveg niður allan launastigann. Við erum að styrkja kaupmátt bótakerfanna, við erum að beina barnabótum meira til þeirra sem eru tekjulægri og auka skerðingarnar hjá þeim sem eru tekjuhæstir þannig að við erum að nota svigrúmið þangað niður. Við hækkuðum barnabætur síðast um 13% og við höldum áfram að láta þær halda í við verðlag.

Þegar við skoðum tekjujöfnunarhlutverk tekjuskattskerfisins þá er ekki öll myndin höfð með í þeim ræðum sem eru hér fluttar. Menn segja að verið sé að draga úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins en hver er staðan hjá þessum ólíku tekjuhópum? 300 þúsund króna maðurinn er að borga um 20% tekna sinna í skatta á meðan milljón króna maðurinn, sem oft er nefndur, borgar 35% tekna sinna í skatt. Skattbyrðin er miklu meiri. Við erum með sama eðlið í kerfinu en við erum í millitíðinni búnir að létta af millitekjuhópunum. Það fer einna mest einmitt til þeirra sem eru í kringum millitekjur og það eru þeir sem fengu á sig mestar byrðarnar í hruninu, fengu mestar skattahækkanirnar á sig og hafa átt hvað erfiðast með að ná endum saman eins og við þekkjum af öllum tölum um stöðuna á húsnæðismarkaði. (Gripið fram í.)

Ég hafna því algerlega að við séum smám saman að veikja svo tekjuöflunarkerfi ríkisins að það verði rústir einar þegar upp er staðið. Þvert á móti erum við með langtímaáætlun sem liggur fyrir þinginu sem sýnir fram á að afgangurinn fer vaxandi og geta okkar til að lækka skuldir mun fara vaxandi sömuleiðis og skuldahlutföllin fara niður. Það verður vandfundið það land í Evrópu sem mun geta bætt skuldastöðu sína jafn hratt og við Íslendingar og að sjálfsögðu eigum við að láta fólk njóta þess, láta allan almenning njóta þess og atvinnulífið eftir atvikum eftir því sem hægt er með lækkun tryggingagjalds o.s.frv. Það stefnir enginn að öðru hér en að gera betur við þá sem minnst hafa milli handanna, þar með talið þá sem þurfa að treysta á tryggingakerfið.