145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon velkist í vafa um það að hann hafi staðið sig vel sem fjármálaráðherra, þá ætti hann að lesa síðustu málsgreinina á bls. 20 í greinargerð með þessu frumvarpi. Ég get ekki skilið hana öðruvísi en svo að í reynd sé verið að fallast á þá stefnu sem sú ríkisstjórn fylgdi, t.d. um vaxtabætur og vernda þá sem erfiðast áttu, það er verið að fylgja henni fram. Menn treysta sér sem sagt ekki til að falla frá því sem við gerðum þá, en það er aukaatriði.

Hv. þingmaður segir að árið 2017 sé ríkisstjórnin í reynd búin að varpa frá sér tekjufærum sem samsvara á ársgrundvelli frá 43–50 milljörðum. Ég hugsa að vísu að það sé eilítið meira en það en segjum 50 milljarðar. Þá er spurningin sem við stöndum frammi fyrir í raun þessi: Hvað mundum við vilja gera við þessa peninga? Það er hin stóra spurning. Það er kannski hægt að segja að það mætti verja þessu til að auka samneyslu eða til að lækka skatta eða til að borga skuldir. Allt þetta þrennt eru möguleikar sem við getum, í þessari kjörstöðu að samfélagið gengur vel, velt fyrir okkur hvernig hefði átt að eyða þessu svigrúmi. Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra álit hv. þingmanns á því.

Af því að hér er um að ræða peninga sem ríkisstjórnin tekur ekki til sín en hefði getað tekið til sín, þá er ég þeirrar skoðunar að obbann af því hefði átt að nota einmitt til þess sem hv. þingmaður undirstrikaði með svo lofsverðum hætti í ræðu sinni áðan til að búa í haginn fyrir börnin okkar. Ég tel að obbann af þessu hefðum við notað, ef við hefðum verið áfram í ríkisstjórn, ekki allt en obbann af því, til að greiða niður skuldir. (Forseti hringir.) Mér sýnist að þar gangi allt of hægt miðað við þær áætlanir sem fyrir liggja af hálfu ríkisstjórnar.