145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að Íslendingar séu að mörgu leyti í ákjósanlegri stöðu. Öll „fúndamentin“ í atvinnulífinu ganga vel og þau hafa gengið vel, þau brugðust ekki heldur í kreppunni. Það var þess vegna sem við náðum okkur upp með þessum hætti. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti framtíðina og okkur miklu máli að við reynum að vinna niður skuldirnar eins hratt og hægt er. Því miður sýnir sagan að Ísland gengur í gegnum miklar efnahagssveiflur og þegar kreppuna bar að garði þá hjálpaði okkur mikið að við höfðum fyrningar, þótt ekki hefðu þær dugað. Þetta skiptir þess vegna máli.

Mér þykir fróðlegt að hv. þingmaður skuli orða það með þeim hætti að töluverðan part af þessum tekjum mundi hann vilja til að nota í hnitmiðaðar skattalækkanir. Hann nefnir tryggingagjaldið. Ég er honum algerlega sammála um það. Það verður að vera eitthvert system í galskapnum. Tryggingagjaldið er að stærstum hluta til að standa straum af bótum vegna atvinnuleysis og atvinnuleysið er á hraðri niðurleið. Ef maður tekur t.d. atvinnuleysið núna og veltir fyrir sér hvað það hefði átt að leiða til mikillar lækkunar á tryggingagjaldi, þá fæ ég út tölu sem losar 10 milljarða. Manni finnst að það ætti að skila atvinnulífinu einhverjum parti af þessu og helst öllu „i det lange løb“, með leyfi forseta. Mér finnst það vera verulegur ágalli hjá hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórninni að engin skref skuli vera stigin til að skila þessu sem má segja, ef maður vill orða það heldur gróflega, er ránsfengur í reynd miðað við lögin eins og þau setja upp tryggingagjaldið.

En að öðru leyti er ég þeirrar skoðunar að það sé mjög rangt hjá ríkisstjórninni að afsala sér öllum þessum tekjum sem hún hefði átt möguleika á (Forseti hringir.) og rifja það upp fyrir reikningsglöggum þingmönnum að á tíu ára tímabili eru þetta 500 milljarðar.