145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vakti sérstaka athygli þingmannsins á því, vegna þess að hann hefur alltaf verið í fararbroddi þeirra sem hafa haldið fram stríðum lýðheilsusjónarmiðum. Þetta litla atriði í frumvarpinu vinnur að minnsta kosti gegn því. Ég treysti því að hv. þingmaður, eins og allir aðrir í þessum sal, sem vilja ná fram sjónarmiðum lýðheilsu, taki með mér á því að breyta því alveg eins og ég veit að hv. þm. Ögmundur Jónasson mun halda skelegga ræðu um hér á eftir.

Hitt er svo alveg klárt að ég er sammála hv. þingmanni um að það má að minnsta kosti kalla það eitt af óhæfuverkum síðustu ríkisstjórnar sem hún gerði varðandi þann varning sem hv. þingmaður nefndi hér en vegna þess að ég telst í hópi neytenda hans þá sat ég og þrumdi og þagði í ríkisstjórninni á meðan hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hækkaði gjöld á þann varning svo að keyrði fram úr öllu hófi og eru engar varnir til í því máli.