145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að kostnaðurinn við framleiðslu þessara bifreiða lækkar mjög ört. Í því geta falist mjög mikil tækifæri fyrir okkur. Það þarf ekki að hafa langt mál um það hversu mikill sparnaður gæti hlotist af því fyrir okkur ef það gengi eftir og menn hættu að flytja inn jarðefnaeldsneyti í þeim mæli sem gert hefur verið, fyrir utan umhverfisáhrifin sem kæmu þá eins og eins konar kaupauki eða bónus.

Það eru eflaust margar ólíkar leiðir til að tryggja framlag þessara bifreiða til samgöngukerfisins. Það er á þann hátt kannski fyrst og fremst bara tæknilegt úrlausnarefni. Það sem ég er með í huga núna, eins og ég nefndi í framsöguræðu minni, er að við veltum aðeins fyrir okkur reynslunni af síðustu breytingum af þessum gjöldum í heild sinni. Þá nefni ég allt frá bifreiðagjaldi yfir í kolefnagjald, yfir í vörugjöld á olíur og síðan á annað eldsneyti. Það eru ákveðnir hvatar sem við byggðum inn í þessi kerfi til að ná tilteknum markmiðum. Eins og menn þekkja eru gild rök fyrir því að hafa afslætti af vörugjöldum í ákveðnum tilvikum, hvort sem er fyrir rafbíla eða aðrar tegundir af bifreiðum. Leigubílar hafa notið góðs af því, ökukennarar og fatlaðir einstaklingar í ákveðnum tilvikum o.s.frv. Ég tel að það sé rétt að fara aðeins yfir reynsluna af núverandi kerfi og skoða markmiðin í ljósi þeirrar þróunar sem við erum að ræða hér og spyrja okkur hvort við getum betur náð markmiðum okkar. Bílaleigurnar eru inni. Við erum að draga úr afslætti þar. Ég mundi gjarnan vilja spyrja hvort við gætum þá skapað svigrúm til að lækka vörugjöldin að öðru leyti á móti.