145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér ýmsar forsendur fjárlaga og ég eins og fleiri sem haldið hafa ræður hér í dag gagnrýni mjög þær skattkerfisbreytingar sem hér koma fram. Ég tel þær ekki vera til hagsbóta fyrir láglaunafólk eða millitekjufólk eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur haldið mjög stíft á lofti. Þá er ég ekki eingöngu að horfa í þær krónutölur sem koma fram á bls. 12 í frumvarpinu þar sem tíundað er hvað hver og einn tekjuhópur fær í lækkun vegna þess að þær segja ekki alla söguna. Við verðum að horfa á þetta í heildarsamhengi.

Þegar verið er að gera miklar breytingar á til dæmis velferðarkerfinu, þegar verið er að hækka virðisaukaskatt á mat, sem leiðir til aukinna útgjalda, og þegar almenningur í landinu þarf að leggja sífellt meira út fyrir ýmsu sem áður féll undir það að vera gjaldfrjálst er ríkið í raun og veru að ná þessari lækkun til sín með óbeinum hætti. Ég hefði viljað sjá að með tekjuskatti væri verið að jafna kjör fólks í landinu. Ég tel að þarna sé blekkingaleikur á ferðinni. Það er óskaplega vinsælt meðal hægri manna að flagga skattalækkunum í kosningum og vissulega eru hægri menn að framfylgja kosningaloforðum sínum með þessum hætti. Það fer ekkert á milli mála. Við sem teljumst vera vinstri sinnuð getum auðvitað ekki átt von á því að hægri menn hrífist svo af málflutningi okkar að þeir verði vinstri sinnaðir og fari að breyta skattstefnu sinni, það er nú ekki svo gott. En fyrir almenning í landinu verður fólk að horfa til þess — og ég held að það sé að gerast í miklu meiri mæli en var hér áður — og opna augu sín fyrir því hvað það fær fyrir skattana sína, fylgi því eftir, að það skili sér í bættum vegasamgöngum, í öflugra heilbrigðiskerfi, í öflugra menntakerfi o.s.frv. Skoðanakannanir sem gerðar voru nýlega segja að Íslendingar vilja borga skatta ef það skilar sér til dæmis í heilbrigðiskerfið. Fólk er ekki lengur feimið við að svara því í skoðanakönnunum vegna þess að það horfir upp á að verið er að veikja velferðarkerfið og draga lappirnar í því að efla innviði landsins. Það er stórhættulegt og með því er verið að senda þá ávísun inn í framtíðina til barnanna okkar, eins og sagt var hér áðan í ræðu.

Ég spyr líka: Er það gott að hagvöxtur sé dreginn áfram af einkaneyslu eins og virðist vera? Það er líka áhyggjuefni að verðbólguforsendur fyrir næsta ár eru 4,5%. Í dag er verðbólga á tólf mánaða tímabili 2,2%. Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessum spám sem koma fram í fylgiriti við frumvarpið? Mér þætti gaman að vita hvaða áætlanir liggja fyrir til að koma í veg fyrir verðbólgu sem virðist vera á uppleið.

Nú eru vissulega ákveðin hættumerki á lofti varðandi þenslu, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið sagt í hagfræðinni að þegar þensla er í einkageiranum þá haldi menn að sér höndum í opinbera geiranum og öfugt. Þetta hefur í gegnum tíðina bitnað mjög á landsbyggðinni. Vegna hvers? Vegna þess að í svokallaðri þenslu, sem getur bæði verið slæm eða góð eftir því hvað er undirliggjandi, hvort raunveruleg framleiðniaukning er í landinu og verðmætasköpun á bak við þensluna eða ekki, virðist landsbyggðin sitja eftir. Eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu virðist sú þensla sem er farin í gang á höfuðborgarsvæðinu koma fram í því að menn haldi að sér höndum í opinberum framkvæmdum úti á landi. Þá er ég að tala um innviðauppbyggingu eins og samgöngumál og í heilbrigðismálum og í uppbyggingu og í eflingu framhaldsskóla vítt og breitt um landið. Þar er skorið niður í nemendaígildum, skorið niður bæði í sóknaráætlun og byggðaáætlun og landsbyggðin horfir upp á það að enn eina ferðina á hún að sitja eftir.

Hrunið kom kannski öðruvísi við landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið vegna þess að þenslan náði aldrei til ýmissa byggða úti á landi. En þegar það er farið að gerast trekk í trekk að þegar bóla fer að vaxa á höfuðborgarsvæðinu þá haldi menn að sér höndum í öllum nýframkvæmdum úti á landi eins og í vegaframkvæmdum og í uppbyggingu fjarskipta, í ljósleiðaravæðingu þess hluta landsins sem situr eftir, þá er það orðinn mikill dragbítur fyrir landsbyggðina. Þá er ekki skrýtið að sveitarstjórnarmenn sem stýra sveitarfélögum á veikari svæðum á landsbyggðinni hafi miklar áhyggjur og viti ekki hvað snýr upp og niður á þessari blessaðri ríkisstjórn sem sýnir fram á að ríkissjóður gæti skilað á þessu ári allt að 18 milljörðum í tekjuafgang.

Ferðaþjónustan hefur verið að vaxa gífurlega mikið en lagt er til að einungis 149 millj. kr. fari í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Í vor voru settar 850 millj. kr. í þennan sjóð og mér heyrist menn kvarta undan því að ekki gangi nógu hratt að koma því fjármagni út. En hvað veldur því? Því veldur þessi mikli vandræðagangur sem verið hefur frá því að ríkisstjórnin tók við. Hún kemst ekki að neinni niðurstöðu um það hvernig eigi að fjármagna þennan geira og uppbyggingu innviða í landinu sem þjóna ferðaþjónustunni, finnur enga leið til þess að fjármagna þetta, slettir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða eftir hendinni og þeir sem leggja fram 50% á móti vita því ekkert fram í tímann hvað þeir hafa í höndunum til þess að undirbyggja og fara í skipulagningu og áætlunargerð. Það er mjög alvarlegt, þegar ferðaþjónustan hefur lýst því yfir að hún hafi mjög miklar áhyggjur af þessum seinagangi í allri uppbyggingu innviða í samfélaginu, að þá sé um leið verið að skera niður tekjustofna ríkisins á ýmsum póstum um hátt í 50 milljarða á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru frá því að ríkisstjórnin komst til valda.

Það kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra í vikunni þegar vaxtabætur voru ræddar að lækkun þeirra upp á 1,5 milljarða, minnir mig, væri mjög eðlileg vegna þess að ríkisstjórnin hefði sett í gang skattafslátt og niðurgreiðslu á húsnæðislánum, um 20 milljarða á ári. En er þetta endilega sama fólkið sem er þarna á ferðinni? Ég held ekki. Skattafslátturinn nýtist vissulega mörgum en hann nýtist samt betur þeim sem hafa möguleika á að spara, þeim sem eru tekjuhærri. Við vitum líka að niðurgreiðslur húsnæðislána hafa farið mjög ómarkvisst út til þeirra sem þar eiga í hlut.

Ég vildi sjá miklu beinskeyttari aðgerðir til þess að mæta láglaunafólki og millitekjufólki, oftar en ekki ungu fólki sem er að koma undir sig fótunum og koma sér fyrir, hvort sem er í leiguhúsnæði eða með því að kaupa húsnæði. Þegar afkoma ríkisins batnar eins og hún er vissulega að gera — og auðvitað er ekki bara hægt að þakka núverandi ríkisstjórn það heldur fyrst og fremst fyrrverandi ríkisstjórn þó að ég geti alveg unnt núverandi ríkisstjórn þess að ylja sér við það líka, eitthvað hefur þá vonandi líka verið gert rétt hjá henni — á að nota þann tekjuafgang til þess að byggja innviðina upp og rétta kúrsinn gagnvart þeim sem þurfti að skera niður hjá, eins og öldruðum og öryrkjum og nota þann afgang líka til að greiða niður skuldir ríkissjóðs svo að við séum ekki að eyða allt of hárri upphæð á hverju ári í vaxtakostnað.

Það er eins og það er. Ríkisstjórnin heldur áfram að setja undir sig hausinn og keyra harða hægri stefnu. Mér fannst mjög merkilegt það sem kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hér áðan að hún væri orðin þreytt á einhverri málamiðlun, að komið væri nóg af slíku og menn ættu bara að tala nákvæmlega fyrir sinni stefnu og keyra hana áfram, sú stefna verði keyrð hér áfram. Ég spyr mig þá bara: Hvað má blessaður Framsóknarflokkurinn segja? Er hann genginn til liðs við Sjálfstæðisflokkinn eða er hann bara alveg á kantinum? Eða ætla menn að skiptast á, í ár sé það fjárlagafrumvarp Sjálfstæðisflokksins og næsta ár verði það frumvarp Framsóknarflokksins? Þegar tveir flokkar eru við stjórn mundi maður ætla að það væri gerð einhver málamiðlun nema það sé orðið svona stutt á milli þessara flokka í stefnu að það sé bara til málamynda, að stefnurnar séu bara það líkar. Mér heyrðist nú ýmislegt koma fram á flokksþingi framsóknarmanna í vor sem rímar ekki alveg við fjárlagafrumvarpið.

En í lokin varðandi tryggingagjaldið, þá tek ég alveg undir að það sé mjög brýnt að lækka það. Í dag er það 2% hærra en það var fyrir hrun og það er búið að lofa lækkun á tryggingagjaldi, það mun skila sér í því að fyrirtækið geti þá frekar mætt launahækkunum og fjölgað við sig starfsfólki. Ég styð það heils hugar að tryggingagjaldið verði lækkað og að tekjuafgangur hjá ríkissjóði verði nýttur markvisst til að styðja við þá sem hafa lægri laun og þurfa á því að halda.