145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þessi eilífa brauðmolakenning sem hægri menn fara alltaf með eins og faðirvorið. Það er svolítið gaman að því að halda virkilega að við það að lækka skatta af þeim sem eru með háar tekjur muni alltaf hrynja einhverjir brauðmolar og sáldrast út í samfélagið, sem nýtist öllum. Veruleikinn er ekki þannig. Veruleikinn er þannig að ef við ætlum að standa undir einu stykki samfélagi með öllu því sem við viljum og gerum kröfu um — það er ekki eins og kröfurnar um að hafa öflugt heilbrigðiskerfi, menntakerfi, vegasamgöngur og alla þessa innviði sem við viljum sjá í nútímasamfélagi minnki, kröfurnar eru til staðar, líka hjá hægri mönnum, líka hjá þeim hægri mönnum sem sjá eftir hverri krónu sem þeir setja í skatta. Það er bara eins og í Litlu gulu hænunni, það verður einhver að baka brauðið, það er ekki bara hægt að borða kökuna. (BN: Það er enginn að tala um það.) Það þarf að baka brauðið og það þarf að leggja í það og þá þurfa allir að leggja í það brauð eftir efnum og ástæðum. Er það ekki þannig ef allir ætla að borða brauðið í framhaldinu?

Hægri menn verða að fara að skilja að það er gott samfélag þar sem allir leggja sitt af mörkum til að geta boðið þá þjónustu sem við viljum öll fá og tölum um að eigi að vera svo sjálfsögð. Viðhorfið er farið að breytast gagnvart þessum hlutum, líka hjá mörgum hægri mönnum erlendis. Það er ekki gott efnahagskerfi þar sem skattar eru lágir og ójöfnuður ríkir í samfélaginu. Það er ekki efnahagslega gott til framtíðar að þeir sem eru með lægri launin standi raunverulega hlutfallslega undir miklu meiri byrðum en þeir sem eru með hærri laun. Um það hafa verið rituð rit, (Forseti hringir.) virt tímarit hafa gefið það út.