145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst samfélag okkar núna ekki vera statt þar að okkur veiti ekki af fjármagni til að fjármagna samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, Landspítalann, svo eitthvað sé nefnt. (Gripið fram í.) Ef menn tala um að aldrei sé tími til að lækka skatta, er það eitthvert markmið í sjálfu sér að þá verði lífið miklu betra? Hver á þá að borga úr eigin vasa fyrir alla þjónustu eins og er í Bandaríkjunum varðandi heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og annað? Auðvitað vilja hægri menn það. Á hverjum bitnar það (Gripið fram í.) að þeir efnameiri geti kannski keypt sig fram fyrir röðina og nýtt sér heilbrigðisþjónustu og annað því um líkt? Það er kannski verra þegar kemur að vegalagningu að einhverjir auðmenn landsins fari að leggja vegi fyrir okkur en sumir vilja hafa alla vegi í einkaframkvæmd og menn bara borgi.

Það er ágætt að fá fram hjá hv. þingmanni grímulausa hægri stefnu. (Gripið fram í.) Þetta er bara akkúrat sú stefna sem menn eiga að tala fyrir í þeim flokki dagsdaglega því að fylgið hrynur bara neðar og neðar. Við hin eigum að vera miklu duglegri að tala fyrir því hvað við notum skattana í; að byggja upp öflugt og sanngjarnt og réttlátt þjóðfélag sem fólk getur haft aðgengi að þjónustu og öllu því sem við viljum að samfélagið bjóði upp á, óháð efnahag og búsetu. Ég vil búa í slíku samfélagi og ég gef ekki mikið fyrir einhverjar brauðmolakenningar hjá Sjálfstæðisflokknum sem hafa nú ekki sýnt sig hingað til að hafi virkað. Hver klúðraði öllu hér og allt fór í vitleysu árið 2008? Var það launafólk í landinu? Nei, það var fjármálakerfið og ríkisstjórnin sem (Forseti hringir.) hafði ekkert eftirlit með þeim óskapnaði og ríkissjóður var vanbúinn til að taka við því öllu.