145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:48]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Ég vil þakka fjármálaráðherra fyrir greinargóð svör. Ég verð að vera ósammála hugmyndinni um að hafa þessi tvö skattþrep. Ég tel að mögulega væri betra að hafa fleiri skattþrep og hafa þá minna bil á milli þeirra, eins og t.d. er gert í Noregi. Það virðist ekki koma niður á fólki að einhverju leyti heldur hefur reynst vel að hafa fleiri skattþrep en eitt.

Mér finnst mjög gott að það komi vel fram varðandi leigumálin að þetta sé gert til langtíma og ég vona að það verði þá mjög skýrt í lögunum að um sé að ræða húsnæði til þess að halda heimili en ekki til að vera með í útleigu til ferðamanna, sem er aftur á móti önnur umræða.

Ég er líka sammála fjármálaráðherra um það að við þurfum náttúrlega að hugsa leigumarkaðinn og hugsa húsnæðismarkaðinn út frá stærra samhengi og þá ekki síst staðsetningu á húsum, t.d. fyrir háskólanema. Það þýðir ekkert að henda þeim hálfa leið upp í Hveragerði og ætlast til þess að þeir kaupi bíla. Það hefði verið gott að sjá eitthvað fleira frá fjármálaráðherra um stöðu nemenda o.fl., í háskólanum sérstaklega.