145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:51]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Ég vil þakka fyrir þá góðu umræðu sem á sér stað hérna. Mér finnst mjög áhugavert hvernig hæstv. fjármálaráðherra talar um það hve gott það sé að eignast sitt eigið húsnæði, það er náttúrlega draumur margra. En hvernig? Hvernig á ungt fólk að komast í gegnum greiðslumat?

Ég sé sjálfa mig ekki komast í gegnum greiðslumat á næstunni þrátt fyrir að vera á blessuðu þingfararkaupi, einfaldlega vegna þess að gerðar eru gífurlegar kröfur um bæði útborgun í íbúð og fjárhagsstöðu.

Ungt fólk, fólk af minni kynslóð, sem var 18 ára árið 2008, er beinlínis hrætt við að taka lán á Íslandi, einfaldlega af því að neytendaverndin á lánunum er svo hræðileg, vaxtakjörin eru ekki nógu góð, íslenska krónan er ekki nógu stöðug til þess að viturlegt sé að vera að fjárfesta í íbúð, það er verðtryggingin og allt það. Það er bara þannig að margir af minni kynslóð hafa það ekkert í huga að eyða peningunum sínum í eignir á Íslandi. Það virðist ekki vera fýsilegur valkostur. Það er eitthvað sem þarf að taka á og það þarf að gera í víðara samhengi.