145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég tók eftir því að hann sagði að málið væri lagt fram, eins og ég skildi hann, með breytingum frá því að það var lagt hér fram síðast. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það því að töluvert var um þetta rætt og á þetta deilt á síðasta þingi. Meðal þess sem við í minni hlutanum á Alþingi nefndum var að hyggilegra væri að bíða eftir jafningjarýni frá DAC. Það var jafnvel óskað eftir því að henni yrði flýtt. Ég sé það í skýrslunni að þar er vitnað til jafningjarýnisskýrslu sem gerð hefur verið hjá öðrum aðildarríkjum DAC. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki komið til greina að óska eftir því að þessari jafningjaúttekt yrði hraðað svo að hægt yrði að taka þessa ákvörðun um fyrirkomulag þróunarsamvinnu að henni lokinni þannig að þá væri fenginn grundvöllur fyrir framhaldið. Ég óska eftir að vita hvort þetta hafi verið íhugað af hálfu hæstv. ráðherra.