145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum aftur fyrir andsvarið. Það er alveg rétt að í úttekt DAC, eða skýrslunni sem var gerð 2013, kemur fram að ramminn sem við höfum um þróunarsamvinnu sé í raun ágætur. Það kemur líka fram að það eru ákveðnar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem við þurfum að bæta úr eða er bent á að væri gott að bæta úr. Eitt af því sem við gerum er að bregðast við því, m.a. með því að samhæfa og samræma og fá betri yfirsýn yfir það sem við erum að gera heildstætt þegar kemur að þróunarsamvinnu.

Það er vitanlega þannig að tvíhliða þróunarsamvinna og marghliða þróunarsamvinna skarast orðið töluvert þegar við erum að vinna með alþjóðastofnunum óbeint tengt tvíhliða þróunarsamvinnu, ef það má orða það þannig. Við erum jafnvel að styrkja félagasamtök sem eru alþjóðleg eða stofnanir Sameinuðu þjóðanna o.s.frv. Það blandast inn í tvíhliða starfið. Ég held því að (Forseti hringir.) við séum að bregðast rétt við skýrslunni frá 2013.