145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég er alveg sannfærður um að þessum samruna mun fylgja fjárhagslegur hagur, þ.e. betri nýting opinbers fjár, sem ég er mjög fylgjandi. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrir liggi einhverjar tölur um það, þegar rykið er sest eins og maður segir, því að alltaf þyrlast upp smáryk þegar svona samruni verður, hvað samruninn muni spara. Ég vænti þess að sá sparnaður sem fram kemur nýtist beint í þróunarverkefnið og verði ekki endilega látinn renna til ríkissjóðs. Ég vænti þess að sá hagur komi fram í öflugra starfi okkar í þróunarmálum.