145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er ekki gert ráð fyrir því að strax við sameiningu verði til fjárhagslegur sparnaður, enda erum við að bjóða öllu því fastráðna starfsfólki sem er þarna í dag störf áfram á skrifstofunni. Það verður að segjast eins og er að við erum ekkert sérstaklega ofmönnuð þegar kemur að verkefnum í þróunarsamvinnu. Það mun hins vegar í framtíðinni væntanlega leiða af sér að það verður meiri samruni og einhvers konar hagræðing sem mun eða getur skilað sér í fjárhagslegum sparnaði, en það er ekki gert ráð fyrir því sem einhvers konar meginþema varðandi þessa sameiningu. Við erum fyrst og fremst að reyna að ná meira út úr þeim fjármunum sem við höfum í dag, búa til umhverfi þar sem starfsfólk sem hefur verið í tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu getur unnið saman. Það mun bæta þekkingu allra, held ég, þegar á endann er komið. Í framtíðinni tel ég að það geti leitt af sér einhvers konar fjárhagslegan sparnað í stjórn og slíku en það er ekki markmið í sjálfu sér.