145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Í fyrsta lagi er ekki unnið eftir nýju skipulagi í utanríkisráðuneytinu. Hins vegar er, eins og kom fram í ræðu minni, gert ráð fyrir að undirbúningsvinna hefjist. Gangi það eftir, og við gerum ráð fyrir því, að frumvarpið fari í gegn er ekkert óeðlilegt að undirbúningsvinna hefjist. En það er ekki unnið eftir neinu nýju skipulagi, hvorki innan Þróunarsamvinnustofnunar né ráðuneytisins, það er allt við það sama.

Varðandi þingmennina hefur það stundum komið upp í umræðum hér á þingi og í nefndum að þingmönnum finnist þeir vera í litlu sambandi við það sem er að gerast í þróunarsamvinnumálum og því er lagt til að hluti af þróunarsamvinnunefnd verði skipuð þingmönnum, til að tengja betur við þingið. Það er hugsunin með því. Ein tillagan var að hafa sérstaka þingmannanefnd sem fjallaði um þróunarmál en það þótti of þungt og umfangsmikið og þess vegna var lagt til að hluti aðila í þróunarsamvinnunefnd yrðu þingmenn.

Svo vil ég leiðrétta hv. þingmann með það (Forseti hringir.) að allar götur frá því að fyrri ríkisstjórn sótti um aðild að Evrópusambandinu hefur meiri hluti þjóðarinnar verið andvígur því í öllum könnunum að ganga í Evrópusambandið.