145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel einfaldlega mjög mikilvægt að hlusta á þær óskir sem starfsmenn bæði ÞSSÍ og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins hafa þegar kemur að þessari sameiningu. Það hefur komið fram að einhverjir starfsmenn hafa spurt hvort þeir verði þá skyldugir til að fara inn í þetta flutningsskylda kerfi. Aðrir hafa sagt og sýnt að þeir hafi áhuga á því að fara inn í það kerfi. Við þurfum að reyna að mæta óskum þessa fólks.

Það er ekki þannig að hugmyndin sé endanlega sú að öllum verði þröngvað inn í eitt box heldur ætlum við að reyna að hlusta eftir því hvað fólk vill gera. Það er hluti af þeirri undirbúningsvinnu sem hér um ræðir, það er að fara í gegnum þetta ferli, máta fólkið inn í þetta nýja umhverfi. Ég held að því fyrr sem menn hefja þá vinnu, verði þetta frumvarp samþykkt, því betra. Það kemur í ljós ef svo er ekki og þá erum við áfram með kerfið sem við erum með í dag.