145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta held ég að sé mikilvægt atriði því að hér er þessi breyting boðuð til að stilla saman rödd Íslands á vettvangi þróunarsamvinnu með þeim rökum að þetta sé að færast æ meira í einn og sama pottinn, þ.e. utanríkisviðskipti, þróunarsamvinna og önnur utanríkismál. Það er það sem veldur mér áhyggjum í þessu máli. Ég tel að þarna þurfi að vera skýr aðgreining því að markmiðin eru auðvitað mjög ólík þótt það kunni að skapast vild sem aukaafurð af þróunarsamvinnu.

Mig langar að nýta síðara andsvar mitt til að spyrja hv. þingmann um annað og það tengist líka vinnslu hans í embætti utanríkisráðherra. Það er staðreynd að utanríkisráðuneytið er ólíkt öðrum ráðuneytum að því leyti að fagstofnanir þess eru ekki margar, raunar bara ein og það er Þróunarsamvinnustofnun. Verði þetta frumvarp að lögum verður utanríkisráðuneytið ekki með neina slíka fagstofnun, þá verður ráðuneytið bara eitt og sér. Hér hefur staðið yfir umræða um það hvort þetta þjóni þeim markmiðum sem hafa verið sett um samhentari stjórnsýslu, færri einingar. Það er mín skoðun að svo sé ekki því að sú gagnrýni sem hefur verið á að stjórnsýslan sé of veikburða hefur fyrst og fremst miðast við það að ráðuneytin séu of lítil og veikburða.

Núverandi ríkisstjórn hefur farið þá leið að kljúfa aftur ráðuneytin sem búið er að sameina, af einhverjum ástæðum, þannig að til eru ráðuneyti sem eru harla lítil að vöxtum og væntanlega ekki mjög burðug. En aðeins um sýn hv. þingmanns og fyrrverandi hæstv. ráðherra á þetta, þ.e. hvort það skipti einhverju máli til að auka burði ráðuneytisins að fá þessa fagstofnun inn. Ég hef að minnsta kost ekki skilið þær leiðbeiningar sem settar voru fram þegar ráðist var í úttekt á stjórnsýslunni, að sú gagnrýni snerist um að sameina stofnanir ráðuneytum, fremur að ráðuneytin (Forseti hringir.) þyrfti að styrkja, jafnvel sameina til að þar væri öflug stjórnsýsla, en ekki endilega að stofnanirnar kæmu þar inn í.