145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður telur að það megi fækka stofnunum, setja þær jafnvel inn í ráðuneyti, og það er skoðun. Hv. þingmaður samþykkti hér í vor að færa verkefni úr menntamálaráðuneytinu og búa til nýja opinbera stofnun, Menntamálastofnun, og hann hefur þá væntanlega verið á því að þar færi vel á því að færa verkefni úr ráðuneyti yfir í stofnun. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki skortur á einhverri samhæfðri stefnumótun hér, hjá löggjafanum og framkvæmdarvaldinu.

Ef við viljum fækka stofnunum og færa þær inn í ráðuneyti velti ég því fyrir mér af hverju meiri hlutinn á Alþingi kaus að búa til nýja stofnun í vor en ætlar svo að fækka stofnunum í haust með því að færa þær inn í ráðuneyti. Ég skil ekki alveg stefnuna sem býr að baki. Ég dreg í efa að það sé nein sérstök stefna að baki þó að hv. þingmaður hafi viðrað þessa sýn sína, sem ég man þó ekki eftir að hafa heyrt hann viðra í umræðum um Menntamálastofnun í vor. (Gripið fram í.)

Eins og ég sagði fyrr tel ég að viss verkefni eigi að eiga heima í ráðuneytum og önnur í stofnunum. Það sem ég dreg í efa er að ráðuneyti fari í senn með stefnumótandi vald, framkvæmdarvald og eftirlit. Ég vildi óska að við ættum fleiri andsvör inni því að ég mundi vilja heyra hv. þingmann lýsa skoðun sinni á því. Um leið tek ég undir það að við eigum víða við veikburða ráðuneyti. Ég skil til dæmis ekki af hverju sú leið var farin að fjölga ráðherrum og ráðuneytum aftur, ég skil ekki af hverju sú leið var farin hjá nýrri ríkisstjórn, nema það hafi snúist um einhvern tiltekinn stólafjölda. Ég held að ráðuneyti þurfi að vera burðug til þess að geta virkað sem almennilegar einingar í stjórnsýslunni.

En það er samt ekki svo mikið yfirmarkmið að ráðuneyti séu burðug að ég telji að þau eigi að fara með alla skapaða hluti. (Forseti hringir.) Ég spyr bara: Hvernig á menntamálaráðuneytið til dæmis að geta haft eftirlit með menningarstofnunum sem undir það heyra ef þær eru allar inni í ráðuneytinu?