145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er líkt og á síðasta vetri andsnúin þessu máli og af sömu ástæðum og af mörgum ástæðum. Ein þeirra er einmitt sú sem verið að ræða hér á undan og það er að ég skil ekki hvers vegna menn telja rétt í þessu tilfelli að taka fagstofnun — vegna þess að þróunarsamvinna er fag — inn í ráðuneyti.

Fyrir mér er þetta eins og, með sömu rökum og hv. þm. Brynjar Níelsson var með hér áðan, að eðlilegt væri að taka meira og minna allar stofnanir inn í ráðuneytin. Þetta eru auðvitað allt stofnanir sem fjalla um og vinna með málefni sem heyra undir ráðuneytin og þar með má færa fyrir því rök að þau skarist alltaf á einhvern hátt. Þessi rök standast því enga skoðun.

Ég hefði séð það að okkur hefði á síðasta kjörtímabili verið hleypt í gegn með það að taka Ferðamálastofu inn í iðnaðarráðuneyti, það bara datt engum í hug. Það er fráleit hugmynd vegna þess að verkefnin eru ólík.

Í þessu tilviki er það þannig að í viðkvæmum málum eins og þróunarsamvinnu þarf að vera fagfólk sem vinnur með málaflokkinn. Þróunarsamvinna hefur mikil áhrif á þeim svæðum þar sem henni er beitt og þá skiptir máli að menn virði fagið og þar með sjálfstæði stofnunarinnar sem með það vinnur.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort það séu í hennar huga einhverjar fleiri slíkar stofnanir sem við gætum séð þessa ríkisstjórn fara með á sambærilegan hátt. Mér er þetta fullkomlega óskiljanlegt og menn eru í algjörri mótsögn við sjálfa sig með því að taka þessa fagstofnun inn í ráðuneyti.