145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Niðurstaða mín er sú að hér eru menn alveg í fullkominni mótsögn við sjálfa sig. Því er á annan vænginn haldið fram að hér ætli menn að reyna að halda faglegum sjónarmiðum á lofti o.s.frv. en í raun og veru er það bara einhver fagurgali sem skiptir engu máli. Þetta eru bara orð.

Þegar menn taka fagstofnun með þessum hætti inn í ráðuneyti er það orðið einhvers konar samkrull sem á ekkert að eiga sér stað.

Mér finnst þetta skrýtið og mér finnst röksemdafærsla hv. þm. Brynjars Níelssonar geta átt við um allar stofnanir sem heyra undir öll ráðuneyti. Menn geta ekki bara gripið einhver rök í þessu tilfelli og gert hluti bara vegna þess að ráðherrann langar til að gera þetta. Það eru engin rök. Menn þurfa að koma með faglegri, dýpri og betri rök fyrir því.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda áfram með þann hluta málsins. En hv. þingmaður, sem einn af formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, hefur óskað eftir úttekt Ríkisendurskoðunar með bréfi á síðasta vetri um þetta mál, þ.e. að Ríkisendurskoðun geri úttekt á stofnuninni og féllst forseti þingsins á það. Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður hafi upplýsingar um hvað hafi orðið um þá úttekt. Hvenær er von á henni? Veit hv. þingmaður til þess að ráðherrann fari með einhverjum hætti eftir slíkri úttekt eða hvort menn byggi röksemdir sínar á henni? Er slík úttekt enn væntanleg?