145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, við óskuðum eftir úttekt Ríkisendurskoðunar en hún mat það svo að ekki væri rétt að ráðast slíka úttekt fyrir fram. Það voru þau svör sem við fengum þannig að við höfum ekki fengið neitt út úr því. Við óskuðum líka eftir ítarlegri skýrslu frá hæstv. ráðherra sem við fengum nú í vor.

Ég verð að segja að það voru ákveðin vonbrigði að Ríkisendurskoðun teldi ekki rétt að gera slíka úttekt, en við tökum að sjálfsögðu því svari.

Það sem mér finnst vera stóra málið hér er að við þurfum alltaf að skoða hverja stofnun faglega. Þó að þetta sé formbreyting er oft hugsun á bak við það af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Hugsunin í þessu tilviki er sú að faglega starfið, framkvæmd stefnunnar, eigi betur heima í sjálfstæðri stofnun.

Við getum bara velt því fyrir okkur, af því að umræða um stofnanir hefur aðeins farið af stað, hvað okkur fyndist til dæmis um að Veðurstofan væri hluti af umhverfisráðuneytinu. Fyndist okkur eðlilegt að rannsóknastofnun á borð við Veðurstofuna væri beint undir ráðherra? (Gripið fram í: Brynjari Níelssyni finnst það.) Við getum velt því fyrir okkur hvað okkur fyndist um að ýmsar stofnanir sem við eigum, Orkustofnun, Náttúrufræðistofnun og allar þessar stofnanir væru bara inni í ráðuneytum.

Það slær mig líka þegar ég velti þessu upp, af því að hér hefur það verið nefnt að best væri að hafa stofnanir inni í ráðuneytum, af hverju sú ríkisstjórn sem nú situr færir ýmist verkefni úr ráðuneytum eða inn í ráðuneyti. Mér finnst líka vera dálítið einkennilegt að horfa upp á að ekkert samræmi sé á milli ólíkra ráðuneyta um þessi mál.

Þar sem ég er mikill aðdáandi hinnar djúpu og ítarlegu umræðu held ég að svona umræður geti einmitt fært okkur nær ákveðnum röksemdum í málinu. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að hv. þingmenn velti því fyrir sér hvort ekki sé hreinlega þörf á einhverri heildarsýn í þessum málaflokki, hvar verkefnin eiga heima.