145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum innlegg hennar í þetta skrýtna mál, sem mér finnst að mörgu leyti vera. Hún segist aðallega líta á það frá faglegu sjónarmiði. Ég er henni sammála um að okkur ber að gera það. Fólk hefur nú verið að tala hér um hvað sé gert við stjórnsýslustofnanir og þar fram eftir götunum. Ég get ekki séð að Þróunarsamvinnustofnun sé beinlínis stjórnsýslustofnun, en fólkið sem þar vinnur er náttúrlega með allt aðra þekkingu og er á allt öðru starfssviði en hin almenna utanríkisþjónusta sem er líka diplómasía, er líka ákveðið fag, en allt annað fag en þróunarsamvinna.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Nú var þetta mál rætt hér í fyrra og ýmsar umsagnir hafa borist. Sér hún þess stað að tekið hafi verið tillit til einhvers hluta af þeirri vinnu sem unnin var í fyrra þegar þetta var endurskoðað? Er þetta ekki bara meira og minna flutt í sömu mynd og við höfðum það í fyrra? Þetta virðist því vera nokkuð einbeittur ásetningur að gera þetta hvað sem hver segir.