145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega svo. Ástæðan fyrir því að ég tek þátt í þessari umræðu aftur er í rauninni sú að mér finnst illa að þessu staðið, mér finnst þetta ekki rökrétt að neinu leyti, mér er mjög annt um þessa stofnun og það sem hún hefur staðið fyrir.

Sú gagnrýni sem kom fram á fundum utanríkismálanefndar — ég sit þar ekki, en að því er mér sýnist virðist í rauninni ekki neitt mið hafa verið tekið af því heldur er þetta einbeittur vilji, virðist vera, ráðherrans, eða eins og ég sagði áðan vekur mann til umhugsunar þegar hver utanríkisráðherrann á fætur öðrum virðist fá þessa tillögu til sín um að gera þetta, því að hér hefur verið rakið af fyrrverandi utanríkisráðherrum að þetta hafi verið reynt ítrekað. Þess vegna spyr ég mig hverjir hagsmunirnir eru í raun sem þarna eru undir.

Maður veltir því upp að hugsanlega verði fækkað eða að þeir sem fá ekki vinnu áfram eða vilja hana ekki fái ekki biðlaunarétt. Það er svona sama fyrirkomulagið þarna líka eins og var hjá Menntamálastofnun þar sem stofnanir voru lagðar niður og ekki var biðlaunaréttur ef fólk vildi ekki starf í hinni nýju stofnun. Þrátt fyrir að hér sé verið að tala um að stofnunin renni inn í — svo er líka orðfærið sem notað er, ekki að hún sé lögð niður og flutt eða starfsemin sett undir, heldur er hún látin renna inn í. Samt er þetta gert með þeim hætti að starfsmenn fá ekki biðlaunarétt ef þeir vilja ekki vinna í ráðuneytinu. Mér sýnist á þeim upplýsingum sem ég hef að ekkert tillit hafi verið tekið til þess og þeirra umsagna sem þar komu fram.