145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, og það er nú kannski eitt af því sem maður hugsar um í þessu samhengi þegar um er að ræða stofnun sem staðið hefur sig afskaplega vel, fengið afskaplega góða dóma um allt sem hún er að gera, þó að allir geti bætt störf sín. Það getum við líka eins og hver annar í vinnu sinni, en heilt yfir er talað um að þetta sé afburðastofnun.

Þegar þau komu á fund til okkar í fjárlaganefnd var eiginlega ekkert annað en jákvæð umræða, vegna þess að þau gögn og þær árangursmælingar og annað sem lagt var fram sýndi að stofnunin var að gera vel. Stofnunin lagði líka fram gögn um það hvar hún teldi sig geta gert betur og með hvaða hætti og lýsti vilja til þess. Hún óskaði líka eftir því að fá að klára þetta tímabil þar til skýrslan kæmi út á næsta ári. Þá yrði staðan endurmetin og ef ráðuneyti og aðrir sem og alþingismenn teldu ástæðu til eftir þá niðurstöðu að fara fram með þeim hætti sem hér er verið að gera, þá yrði í það minnsta liðið það tímabil sem lagt var upp með að skoða þá starfsemi sem er í dag. En það virðist bara ekki vera vilji. Það er þessi einbeitti vilji að fara fram með þetta í mikilli ósátt við allt of marga og gegn öllu faglegu og gegn því sem Ríkisendurskoðun segir um að einn og sami aðilinn móti stefnuna, framkvæmi hana og hafi eftirlit með henni. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé sagt hér.

Ég tek undir það að miklu eðlilegra er að við hér, ráðuneytið, móti stefnuna eftir leiðsögn Alþingis, Þróunarsamvinnustofnun framkvæmi og að ráðuneytið hafi svo eftirlitið.