145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fara varlega í að túlka það sem hér segir, en í greinargerðinni segir að ef starfsmaður þiggur sambærilegt starf með tilliti til kjara, verkefna og stöðu, eru biðlaun ekki greidd, þ.e. ef hann þiggur starf innan ráðuneytisins á hann ekki rétt til biðlauna. Nú skulum við hafa í huga að með lagabreytingu 1996 sem tók gildi í ársbyrjun 1997 var biðlaunarétturinn í reynd afnuminn. Þarna er verið að segja að menn skuli ekki njóta biðlauna ef þeir þiggja sambærilegt starf með sambærilegum kjörum. Þetta er því hlutur sem skoða þarf vel.

Ég verð að segja að við þurfum að fara mjög vel yfir starfsmannamálin vegna þess að ekki hefur ekki alltaf hönduglega tekist til. Ég nefni það t.d. af því að það stendur mér nærri að breytingar á samgöngustofnunum á síðasta kjörtimabili voru gerðar undir því fororði að fólk missti ekki vinnu sína. Svo gerðist það við skipulagsbreytingar hjá Samgöngustofu fyrr á þessu ári að fólki var sagt upp störfum. Það var þvert á þau loforð og fyrirheit sem við höfðum gefið. Þess vegna segi ég að það sem stendur í lagafrumvarpi af þessu tagi verður að standa, en það stendur augljóslega ekki gagnvart einum manni, sem er forstöðumaðurinn í stofnuninni.

Varðandi spurningu hv. þingmanns hvað varðar biðlaunarétt og önnur réttindi starfsmanna er það þáttur sem ég mundi vilja fara miklu betur yfir.