145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég spyr hv. þm. Ögmund Jónasson: Af hverju þarf skýra yfirlýsingu hæstv. ráðherra? Ef þetta frumvarp verður að lögum þá er algjörlega ljóst að öllu sem í því segir þarf að hlíta. Það segir í frumvarpinu og hv. þingmaður las það upp áðan að öllum föstum starfsmönnum ÞSSÍ, þar voru engar undantekningar gerðar, beri að bjóða starf í ráðuneytinu á sambærilegum kjörum og með svipaða stöðu. Það þýðir samkvæmt orðanna hljóðan að verði frumvarpið að lögum þá kemst hæstv. ráðherra ekki hjá því að bjóða forstöðumanni stöðu á svipuðum kjörum. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um það?

Það sem málið snýst um er það að ég skildi hæstv. ráðherra þannig að ef frumvarpið yrði ekki að lögum og honum tækist ekki að knýja fram sinn vilja hér í gegnum þingið um að leggja stofnunina niður, þá ætlaði hann samt sem áður ekki að endurráða hann yfir stofnunina. Hann hefur lýst því yfir að viðkomandi starfsmaður sé vandvirkur og það sé ekki hægt að finna að neinu í hans störfum. Getur hv. þingmaður álasað mér fyrir það að komast að þeirri niðurstöðu að þarna sé hæstv. ráðherra að veifa refsivendinum og hann ætli að tyfta forstöðumanninn fyrir að hafa sagt satt, fyrir að hafa gefið allar upplýsingar og fyrir að hafa verið sannfæringu sinni trúr og sagt þegar hann var spurður að því að hann teldi að það væri óráð að leggja niður þessa stofnun? Það finnst mér vera það sem þetta mál snýst um. Þetta er hinn móralski þungi í málinu. Ráðherrann ætlar að boxa forstöðumann sem hefur (Forseti hringir.) leyft sér að tala frítt þegar þingmenn báðu hann um það.