145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt vegna þessa sem ég tel að þetta mál sé mjög alvarlegt. Það er einmitt vegna þessa sem ég tók málið upp í upphafi míns máls. Það er að sönnu alveg réttur skilningur hjá hv. þingmanni, hæstv. fyrrverandi ráðherra utanríkismála, að í reynd þurfum við enga yfirlýsingu af þessu tagi vegna þess að textinn í lögskýringargagni frumvarpsins, í greinargerð með frumvarpinu, er alveg afdráttarlaus og hann er alveg skýr. Þess vegna er niðurstaða hv. þingmanns í reynd alveg rétt. Mér fyndist bragur að því að hæstv. ráðherra kæmi hér upp að nýju og skýrði hvað það er sem fyrir honum vakir og hvort ekki standi til að fara að þeim ákvæðum sem er að finna í þessu lagafrumvarpi. Ég vona reyndar að það verði ekki að lögum núna, að við berum gæfu til þess að setja það á ís og bíða eftir undirbúningsvinnu eða könnunarvinnu eða greiningarvinnu öllu heldur, sem fram fer í vegum þeirrar stofnunar sem við eigum aðild að og hefur með þróunarmál að gera hjá OECD.