145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:58]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og innleggið. Ég tek heils hugar undir það með þingmanninum að rökstuðningurinn fyrir þessari gjörð er í skötulíki og ekki sannfærandi. Það er aldrei sannfærandi þegar maður sér til dæmis orðréttar tilvitnanir teknar beint upp úr skýrslu einhvers aðila án þess að dæmi fylgi eða einhver atriði séu tiltekin sem segja má að gefi fóður undir það fat.

Auðvitað er það hlutverk stjórnvalda, pólitíkurinnar, að hafa áhrif og móta stefnu. Vilji yfirvalda í utanríkismálum til dæmis, vilji stjórnvalda og ríkisstjórna í utanríkismálum, byggir á stefnu sem er mótuð á hinum pólitíska vettvangi, af ríkisstjórn á hverjum tíma og þinginu. En það er hlutverk fagstofnana og stofnana stjórnsýslunnar að vinna eftir ákveðnum faglegum sjónarmiðum og í því er öryggi og stjórnfesta fólgin að stofnanir fái svigrúm og hafi faglegt sjálfstæði til þess að vinna á grundvelli fagmennsku og að stjórnsýslulegt sjálfstæði og svigrúm sem þær hafa sé virt. Það er ekki góð stefna að forstöðumenn ríkisstofnana til dæmis séu ekki frjálsir að því að tala um raunverulega hluti sem skipta raunverulegu máli, hluti sem byggja á staðreyndum. Ef ekki má tala upphátt um það sem miður fer eða það sem betur mætti fara í (Forseti hringir.) stjórnsýslu okkar, af ótta við hið pólitíska vald, þá erum við komin áratugi ef ekki aldir aftur í tímann.