145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Jú, ég er alveg sammála því að auðvitað er það hlutverk stjórnvalda að móta stefnu. En svo er það spurning hver eigi að framkvæma stefnuna, hvort það sé ekki einmitt mjög heppilegt að það sé sjálfstæð stofnun eins og verið hefur.

Ég hef satt að segja af þessu talsverðar áhyggjur. Það safnast þegar saman kemur, má kannski segja. Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um þróunarsamvinnunefnd og í hana á að skipa fimm fulltrúa úr hópi alþingismanna sem kosnir skulu á Alþingi. Það á að tengja meira saman utanríkisstefnuna og þróunarsamvinnuna og ég hef hreinlega áhyggjur af því að hér sé verið að búa til umgjörð þar sem auðvelt verður að taka einmitt næsta skref yfir í gamla farið, eins og hv. þingmenn hafa talað um að tíðkað hafi verið fyrir einhverjum áratugum síðan, og að praktísera þróunaraðstoðina eða þróunarsamvinnuna á þann hátt að hún sé kannski frekar gerð á forsendum þeirra sem veita en þeirra sem þiggja.

Telur hv. þingmaður að ég sé hér að ganga af göflunum í samsæriskenningum nú þegar farið er að líða á kvöldið eða er hún mér sammála í því að hér þurfum við að vera á varðbergi og hugsa rækilega til enda hvernig þetta muni virka?