145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:07]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þetta er auðvitað grafalvarlegt mál. Þetta er mál sem er á vissan hátt fordæmisgefandi og þar af leiðandi mjög uggvekjandi fyrir heilbrigða stjórnsýslu sem manni hefur nú fundist vera að þróast í eðlilegri farveg á undanförnum áratugum, skulum við segja, síðustu tveimur áratugum. Það er afturför ef menn eiga að geta gert þetta svona.

Ég tek undir það með ráðningu forstöðumannsins; hafi hann ekki óskað eftir því að halda störfum áfram er svo sem ekkert við því að segja en þá fyndist mér eðlilegt að maðurinn nyti biðlauna. Þá er ég að tala um þetta sem almenna reglu í stjórnsýslunni.

Af því að við vorum að tala um hinn heita pólitíska barm ráðherrans þá mætti orða þá myndlíkingu öðruvísi, ég kunni bara ekki við það, en það er auðvitað ekki gott fyrir forstöðumenn sjálfstæðra fagstofnana að hafa alltaf andardrátt ráðherrans við vangann því að þaðan getur lagt leiðinlegan daun.