145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:12]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er rætt er gamall kunningi frá vorþingi sem mér fannst nú rætt ógnarlengi, en hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur bent á að það hafi einungis verið rætt í tvo daga við 1. umr. Síðan var málið rætt lengi í utanríkismálanefnd.

Ég ætla ekki að hafa ræðu mína langa en tilefni þess að ég kem hér upp er að ég viðurkenni að ég var litlu nær eftir þessa tvo daga og alla nefndarfundina um hvert væri hið eiginlega markmið með þessum breytingum. Ég ætla bara að játa það að ég næ því ekki enn sem fram kom í andsvari hæstv. ráðherra, ef ég skildi hann rétt, að eiginlegur sparnaður væri ekki í þessu máli. Hagræðing? Ég veit ekki í hverju hún átti að liggja, það mátti kannski skilja að þegar fram í sækti yrði sparnaður. Og hvað þýðir það? Ekkert í hendi.

Það sem er þyngst í mér er stofnanafræðin því að ég hef litið svo á að ráðuneytið væri hið eiginlega framkvæmdarvald, stjórnsýsla, og síðan ynnu framkvæmdastofnanir undir ráðuneytum, undir þeirri stefnumótun sem fram færi af hálfu Alþingis og framkvæmdarvaldsins, og að þarna yrði að hafa einhver skil á milli. Ég ætla að rifja hér upp nokkur dæmi. Ég ætla að rifja hér upp allar götur aftur til 1960, en þá var hér til fyrirbrigði sem hét réttvísin. Réttvísin var starfsmaður í dómsmálaráðuneyti sem fór með saksókn í opinberum málum. Um 1961, ef ég man rétt, var stofnað embætti ríkissaksóknara og réttvísin var færð úr dómsmálaráðuneytinu í embætti ríkissaksóknara. Enn fyrr varð Hagstofan, sjálfstæð stofnun 1914, tekin út úr fjármálaráðuneytinu og sömuleiðis Ríkisendurskoðun, endurskoðunardeild fjármálaráðuneytisins o.s.frv., þannig að ráðuneytin hafa útvistað stofnunum sínum í gegnum tíðina. Meira að segja var sú undarlega stofnun, Fiskistofa, sem hæstv. sjávarútvegsráðherra þurfti nú að skakast til með á vorþingi, tekin út úr sjávarútvegsráðuneytinu, þannig að mér hefur fundist að öll stofnanafræði ríkisins færi í öfuga átt við það sem hér gerist. Ég ætla aðeins að bæta við að aðstoð Íslands við þróunarlöndin hófst hér 1970 og er líklega hugarfóstur míns ágæta kennara, Ólafs Björnssonar prófessors, hv. þingmanns Reykvíkinga í einn og hálfan áratug, og síðan varð hún Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Ég held að engum hafi á þeim tíma dottið í hug að láta utanríkisráðuneytið verða framkvæmdaraðila í þessu máli.

Ég ætla að hafa mál mitt frekar stutt og koma að þeim punkti að utanríkisráðuneytið varð framkvæmdaraðili þróunarsamvinnu með þessari breytingu. Það hefur alltaf staðið í mér vegna þess að hér var um langt skeið bandarískt herlið. Það var hluti af bandaríska sjóhernum mestallan tímann og þótti ýmsum fullnærri fullveldi landsins gengið. Ég ætla ekki að deila um það, en ég veit ekki hvað hefði verið gert eða sagt ef bandaríska landvarnaráðuneytið hefði verið með sérstaka aðstöðu hér. Þess vegna velti ég því dálítið fyrir mér hvort einhvern tímann hafi verið spurt að því hvað gistilandið segði þegar utanríkisráðuneytið á Íslandi var orðið tilsagnaraðili í sveitarstjórnarmálum í einhverjum löndum. Það er sá aðskilnaður sem veldur mér dálitlu hugarangri og ég velti upp þeirri spurningu: Hvað segir gistilandið við því, sem er vafalaust með sömu hugleiðingar um fullveldi sitt? Við skulum gera okkur grein fyrir því að aðstoð við annað land er ekki veitt, eins og hér hefur margoft komið fram, á forsendu þess sem aðstoðina veitir heldur á forsendu þess sem aðstoðina þiggur.

Vissulega þarf sá er aðstoðina veitir að vera til þess hæfur og bær. Við skulum vona að við veitum aðstoð á því formi sem við kunnum og getum best, en fullveldisatriðið stendur í mér. Ég beini spurningu minni beint til hæstv. utanríkisráðherra fyrst hann er viðstaddur alla umræðuna: Hefur því atriði einhvern tímann verið velt upp hvort sú framkvæmd sem hér hefur verið frá 1970, þá í 45 ár, hafi kannski allan tímann verið óþörf og hvort þetta væntanlega skrifstofuhald og starfsemi utanríkisráðuneytisins í öðrum löndum — hvort hún yrði fegin eða hvort þetta yrðu kannski endalok þróunarsamvinnu?

Síðan hefur umræðan hér kristallast dálítið um forstöðumanninn, sem er nú reyndar orðinn, eftir því sem ég kann að telja, 66 eða 67 ára gamall, það er kannski ekki meginmálið, en sjálfur hefur sá er hér stendur, ræðumaður blessaður, upplifað trakteringar við formbreytingu á stofnunum. Það stendur mér nokkuð nærri að standa vörð um forstöðumann ef í hann á að sparka. Ég upplifði það fyrir nokkrum árum þegar stofnun var breytt að formi til að í mig var sparkað á þann hátt sem ég hefði ekki viljað láta bjóða það öðrum.

Það eru slík atriði sem hafa sérstaklega komið fram hér, hagræðingin, sem engin er, forstöðumaðurinn og síðast en ekki síst sú spurning sem ég velti hér upp varðandi starfsemi utanríkisráðuneytisins. Hingað til hefur utanríkisráðuneytið einungis haft þá starfsemi eina í öðrum löndum sem er skrifstofa sendiráða, sem er allt önnur háttsemi. Menn hafa gert athugasemdir við það á ýmsum stöðum ef sendiráð hafa farið út fyrir það sem Vínarsáttmálinn segir um samskipti ríkja.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég er farinn að tala hér inn í nóttina og það eru einhverjir farnir að banka í borð. Það er meira en ég ætlaðist til, að fólk færi að svara mér.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni.