145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða ræðu. Í henni komu fram að mörgu leyti nýir vinklar, eins og hér hefur verið bent á. Það minnir okkur á að stundum leynist fleira í málum en það sem augað nemur við fyrstu sýn. Þó að þetta mál hafi verið rætt á síðasta þingi eru kannski ekki öll kurl komin til grafar. Við erum einmitt að leitast við hér á Alþingi að hafa sterkan og málefnalegan grunn og grundvöll þegar við tökum ákvarðanir og gæta þess að við stillum okkur ekki upp í minni hluta og meiri hluta að óathuguðu máli heldur reynum að standa hér að góðri löggjöf. Eins og hv. þingmaður orðaði það telur hann mikilvægt, eins og við vonandi flest hér, að menn vandi sig. Þætti engum mikið þó að það væri fyrsta krafan þegar störf okkar eru metin í lok dags.

Fram hefur komið að í kjölfar tillögu Þóris Guðmundssonar lagði Þróunarsamvinnustofnun sjálf til að Ríkisendurskoðun yrði fengin til að meta stjórnsýslulegt gildi tillögunnar og að DAC yrði fengið til að hraða jafningjaúttekt á Íslandi sem fara á fram 2016, en vafalaust væri hægt að fá hana gerða fyrr. Með þeirri úttekt ætti að fást styrkari grundvöllur fyrir ákvörðun um framhald. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hann eitthvað liggja á að ljúka málinu áður en hin mikilvæga úttekt þróunarsamvinnunefndar OECD liggur fyrir?