145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eftir að það fólk sem hefur orðið hefur fyrir þessari miklu og skelfilegu stríðsógn í Sýrlandi fór að flýja til Evrópu þá hefur athygli okkar beinst að skelfilegum aðbúnaði þess. Það er allt í lagi að hafa í huga að fram að þeim tíma, áður en þetta gerðist, hafði fjöldi sem samsvarar allri íslensku þjóðinni verið myrtur, að ég held og það vakti því miður ekki mikla athygli. Það minnir okkur kannski á að við ættum að vera meira vakandi fyrir því hvað gerist hjá meðbræðrum okkar í heiminum.

Þetta er eðli máls samkvæmt stórt mál, hefur svo sem alltaf verið en þetta er mál sem við erum að ræða og ég held að allir eigi það sameiginlegt að vilja hjálpa þessu fólki. Orð eru hins vegar ódýr og við hljótum að vera komin á þann stað að við séum núna að leita lausna, skoða hvað við getum gert.

Virðulegi forseti. Ég vil koma fram með tillögu um að við nýtum þróunarsjóð EFTA, sem nú heitir Uppbyggingarsjóður EES-svæðisins, í þetta verkefni. Við setjum nærri jafn háa fjárhæð í þann sjóð, sem er nýttur til að hjálpa efnaminna fólki í Evrópusambandinu, og í þróunaraðstoð. Þróunaraðstoð okkar til Evrópusambandsins er sambærileg og þróunaraðstoð okkar til vanþróaðra ríkja. Frá árinu 2006 höfum við sett 8.000 milljónir í þróunarsjóð EFTA meðan við höfum sett 9.800 milljónir í þróunaraðstoð.

Ég skora á íslensk stjórnvöld, og ég mun sjálfur á vettvangi þingmannanefndar EFTA leggja það til, að nýta þennan sjóð í þetta verkefni. Við setjum 1.000 milljónir í þennan sjóð á þessu fjárlagaári, það eru ekki litlir peningar, og höfum sett 8.000 milljónir í hann á síðustu sex árum.

Með fullri virðingu fyrir þeim verkefnum sem verið er að nýta þessa peninga í núna (Forseti hringir.) þá eru þau ekki jafn brýn og flóttamannavandinn. Ef við viljum veita peningana með skynsamlegum hætti (Forseti hringir.) þá eigum við að nýta þá í þágu flóttamanna. Ég hvet íslensk stjórnvöld til þess að beita sér fyrir því.


Efnisorð er vísa í ræðuna