145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er eflaust ekki einn um það að hafa áhyggjur af samgöngum til Vestmannaeyja og reyndar vægi samgangna yfirleitt í nýju fjárlagafrumvarpi. Þrátt fyrir hátt í 10 milljarða veiðigjöld af sjávarauðlindinni, sem eðli málsins samkvæmt nýtist ekki án nothæfra fiskihafna, er þeim ekki gert kleift að fara í eðlilegt viðhald. Reyndar er bætt í sanddælingu við Landeyjahöfn og er það vel.

Það vakti athygli mína að ekki er gert ráð fyrir fjármagni í smíði nýs Herjólfs í þessu fjárlagafrumvarpi þrátt fyrir að sagt sé að búið sé að hanna skip sem hentar Landeyjahöfn. Það voru reyndar blendnar tilfinningar hjá mér og ef ég á að vera heiðarlegur var ég reyndar svolítið feginn. Það sem meira er, ekki ber mikið á mótmælum frá Vestmannaeyingum sem þó eru þekktir fyrir að láta heyra í sér telji þeir fram hjá sér gengið. Ég hef heyrt í mörgum Vestmannaeyingum sem eru sama sinnis, þeir eru sammála því að verið sé að reyna hið ómögulega, þ.e. að hanna grunnrista ferju sem stenst öldur Atlantshafsins. Það að virtur íslenskur skipaverkfræðingur, sem var í starfshópi um hönnun nýs Herjólfs, skuli hafa sagt sig frá málinu styrkir mig í þeirri skoðun.

Ég tek ofan fyrir hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa kjark til að staldra við, flana ekki að neinu, stíga eitt skref í einu og láta reyna á það hvernig gengur að dæla sandi úr Landeyjahöfn að vetrarlagi með öflugra dæluskipi.

Vestmannaeyingar eiga skilið að hafa öruggar samgöngur á alvöruskipi til Þorlákshafnar á meðan Landeyjahöfn er ekki örugg heilsárshöfn. Fyrirsjáanleiki og stöðugleiki er atvinnulífinu mikilvægur, atvinnuöryggi er hluti af gæðum fiskvinnslunnar og ekki síður í ferðaþjónustu.

Við sem höfum verið til sjós vitum að stundum þurfum við að breyta um stefnu þegar við náttúruöflin er að etja.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna