145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil óska þingheimi og þjóðinni allri til hamingju með dag íslenskrar náttúru. Á slíkum degi er tilefni til að fagna náttúru Íslands og því sem hún gefur okkur á degi hverjum, ár hvert og árið um kring — fiskur, orka, jarðhiti, vatn, loft, norðurljós, myrkur, gróður, fuglalíf, selir, hvalir, fossar og fjöll, landslag og einstök víðerni.

Samfélagið er drifið áfram af afurðum náttúrunnar en arðinum þarf að skipta réttlátar, deila honum út á meðal fólksins í sameiginlega sjóði þar sem allir njóta góðs af, þar sem enginn hirðir ótæpilegan gróða, þar sem samfélagið í heild, framtíðin og börnin njóta góðs af.

Öll nýting verður að vera með sjálfbærum hætti. Við eigum að skila náttúrunni jafn góðri eða betri til komandi kynslóða. Réttur okkar til nýtingar er takmarkaður við slíka nálgun.

En hver er staðan og skilningurinn á stöðu íslenskrar náttúru nú um stundir hér á Alþingi hjá stjórnarmeirihlutanum? Náttúruminjasafn Íslands, sem á að vera höfuðsafn, fær 25 milljónir í framlag á fjárlögum og býr við skilnings- og metnaðarleysi stjórnvalda. Þetta þarf að laga.

Rammaáætlun tókst að verja með miklu harðfylgi á síðasta þingi en friðlýsingar á grundvelli hennar fara ekki fram og engin áform sjást í nýju fjárlagafrumvarpi um að gera betur í friðlýsingarmálum. Þetta þarf að laga.

Frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra til náttúruverndarlaga felur í sér óburðuga vernd sérstakra náttúrufyrirbæra og varúðarreglan er allt of veik í frumvarpinu. Þetta þarf líka að laga.

Náttúra Íslands er einstök á heimsvísu. Hér má finna fjölbreytt náttúrufyrirbæri hlið við hlið, einstakar jarðminjar og fágæti við hvert fótmál, víðáttur, jökla og sanda. Við verðum að átta okkur á því hversu einstök náttúran er og að vernduð er hún grundvöllur heillar atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar.

Íslensk náttúra og allt sem að henni lýtur þarf að skipa ríkari sess í allri ákvarðanatöku og umræðu. Við þurfum að skilja hana, rannsaka hana, virða hana. Hagsmunir hennar eru hagsmunir komandi kynslóða og um þá ber okkur að standa vörð.

Núverandi stjórnvöld þurfa að gera betur, svo miklu betur. Sameinumst um hagsmuni íslenskrar náttúru. Til hamingju með daginn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna