145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða vandamál sem steðjar að innan lands. Það kemur fram í Morgunblaðinu í dag að viðskiptabann Rússa hefur mikil áhrif á tíu byggðarlög, hefur áhrif á laun 400 sjómanna, hefur áhrif á laun 780 verkamanna við fiskvinnslu á Íslandi, fólksins sem var að berjast fyrir hærri launum í allan vetur og uppsker það núna að vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að styðja viðskiptabann á Rússa verður á næstu vertíð trúlega engin loðna fryst á Rússlandsmarkað. Það hefur gríðarleg áhrif á kjör og laun þessa fólks í landinu.

Ég held að það séu akkúrat þessi mál sem við þurfum að ræða hér í þinginu, kjör fólksins í landinu, sem er að tapa gríðarlegum tekjum vegna klaufaskapar við að taka þátt í viðskiptabanni á Rússa. Þó að viðskiptabann Reykjavíkurborgar á Ísrael sé arfavitlaust þá veit ég ekki hvaða samlíkingu má nota um viðskiptabann á Rússa, það er svo vitlaust að það nær ekki nokkru tali að vera þátttakandi í því.

Við þurfum að huga að því hvernig okkar fólk kemur út úr þessum samningum. Það er búið að reyna að ná samningum við Evrópusambandið um að lækka tolla, 20% innflutningstolla á makríl til Evrópusambandsins. Og hvert er svarið við ríki sem er viljugt til að vera með í þessu viðskiptabanni? Nei, það er ekki hægt að lækka tolla á íslenska framleiðslu. Það er nú stuðningurinn sem við fáum til baka fyrir að styðja þetta arfavitlausa viðskiptabann sem kemur náttúrlega verst niður á okkur sjálfum. Við erum eina ríkið sem tekur þátt í þessu viðskiptabanni sem hættir einum af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar í þessari vitleysu.


Efnisorð er vísa í ræðuna