145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi mál hér í þinginu. Það er mikilvægt mál hvernig við getum betur stutt við þá sem treysta á almannatryggingakerfið hjá okkur. Það er gleðilegt að í fjárlagafrumvarpinu er einhver mesta hækkun bóta sem um getur í einu fjárlagafrumvarpi, nefnilega að þær aðstæður hafa skapast hér í landinu að við höfum meira til skiptanna, kakan er að stækka og það hefur leitt til launaþróunar í landinu sem aftur gerir að verkum, samkvæmt lögum, að við munum hækka bætur. Það erum við að gera. Við höfum reyndar gert meira en að hækka bætur á þessu kjörtímabili í samræmi við lagaákvæði vegna þess að á árinu 2014 og aftur á árinu 2015 og enn aftur núna á fjárlögum ársins 2016 erum við að hækka bætur verulega umfram þróun verðlags og kaupmáttur bóta hefur þannig vaxið á hverju einasta ári.

Ég ætla að rifja það hér upp að það var eitt fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar árið 2013 að taka til hendinni í þessum málaflokki. Við hækkuðum framlög til þessa málaflokks um 5 milljarða, afnámum skerðingar grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna, við hækkuðum frítekjumark vegna atvinnutekna úr 40 þúsundum í 110 þúsund og síðan voru skerðingarhlutföll tekjutryggingar lækkuð að nýju en þau höfðu verið hækkuð í tíð fyrri ríkisstjórnar í aðhaldsskyni.

Við höfum á fyrstu tveimur árum þessarar ríkisstjórnar stórhækkað bæturnar og ætlum að halda því áfram. Hér er lagt upp með það að við þurfum að láta bæturnar fylgja lágmarkslaunum og ég virði það við hv. þingmann að hann er ekki að tefla fram tillögu í öðru máli hér fyrir þinginu sem gerir ráð fyrir því að allar bætur allra hækki heldur þeirra sem eru í þrengstri stöðunni. Það er ágætisviðleitni en það er engu að síður verið að boða hér töluvert mikil viðbótarútgjöld. Mér finnst skorta í þetta innlegg alla umræðu um fjármögnun þessara gríðarlega miklu útgjalda. Höfum það líka í huga að á næstu árum er því spáð að það verði gríðarlega mikil aukin þörf fyrir útgjöld í kerfinu vegna hækkandi öldrunarkostnaðar.

Við skulum virða til dæmis í því samhengi fyrir okkur nokkrar tölur. Ellilífeyrisþegum 67 ára og eldri á eftir að fjölga; í dag eru þeir 38 þúsund, þeir verða orðnir 63 þúsund árið 2030 og 76 þúsund árið 2040. Þeir sem boða verulegar hækkanir, umtalsverðar, sem kosta í þeim veruleika sem við búum við í dag á annan tug milljarða, eiga ekki að blanda sér í umræðuna án þess að tæma hana þá alveg og útskýra fyrir okkur hvernig þeir sjá fyrir sér að þetta verði fjármagnað. Ég kalla eftir því að menn nefni tryggingagjaldið í því samhengi vegna þess að í dag er það þannig að við erum með í tryggingagjaldinu frá fyrirtækjunum í landinu fjármögnun á almannatryggingakerfinu þannig að við erum að fjármagna um það bil 71% af lífeyris- og slysatryggingum. Vilji menn stórauka bæturnar án þess að hækka tryggingagjaldið þá er ríkið að taka á sig stóraukinn hlut. Það kann að vera að menn vilji feta þá slóð en það þarf þá að koma fram.

Það sem ég vil nefna hér undir lok þessarar fyrri ræðu minnar er að kaupmáttur bóta er að hækka. Hann mun halda áfram að hækka. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af þeim sem eru í þrengstri stöðu. Ég heyri það mjög skýrt frá hagsmunasamtökum þessara hópa að þeir vilja leggja mesta áherslu á að hjálpa þeim. Það mun þó gerast í upphafi næsta árs að bætur þessa hóps fara upp fyrir lágmarkslaun. Síðan er tröppugangurinn þannig í tíma að lágmarkslaunin fara aftur upp fyrir og svo þrengist bilið o.s.frv. Þetta gengur svona í tröppugangi. Í upphafi þessa árs voru til dæmis bæturnar hærri en lágmarkslaun og verða aftur í upphafi næsta árs þannig að þetta er ekki alveg svona einföld umræða. Aðalatriðið er að við höfum raunverulega viðspyrnu í ríkisfjármálunum til að gera betur. Við erum að sýna fram á það í fjárlögum næsta árs, við erum að sýna fram á það í ríkisfjármálaáætluninni. Það er vilji hjá ríkisstjórninni til að taka til hendinni í þessum málaflokki. Við höfum sýnt það á hverju einasta ári allt þetta kjörtímabili og við erum að boða breytingar á næsta ári.

Svo vil ég taka undir með hv. þingmanni þegar kemur að endurskoðun almannatryggingakerfisins. Auðvitað hlýtur það að vera eitt stærsta verkefnið sem við okkur blasir að einfalda kerfið, fækka (Forseti hringir.) bótaflokkum, sameina þá. Það þarf síðan að hækka lífeyristökualdurinn í skrefum, breyta fyrirkomulagi örorkumats o.s.frv. Þannig stígum við næstu stóru skref til framfara í þessum málaflokki.