145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[15:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir þessa umræðu sem ég tel að sé alveg gríðarlega mikilvægt að við eigum hér á Alþingi. Allt of margir lífeyrisþegar, hvort sem það eru örorkulífeyrisþegar eða ellilífeyrisþegar, búa við fátækt og það sést best í því að fólk sem tilheyrir þessum hópum er að fresta því að kaupa lyf, fara til læknis og hefur tíðar fjárhagsáhyggjur. Skýrara verður það auðvitað ekki að þessi hópur býr við erfiða fjárhagslega stöðu.

Ég vil því segja að ég styð það frumvarp sem hv. þingmaður lagði fram um að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna í samræmi við kjarasamninga og verði 300 þús. kr. árið 2018.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það skorti fjármögnun vegna þessara auknu útgjalda og ég vil í því samhengi segja: Þetta er auðvitað spurning um pólitískt val og pólitíska forgangsröðun. Það þarf að sækja peningana til þess að reka samfélagið þangað sem peningarnir eru og það er hlutverk velferðarsamfélagsins að endurdreifa auðnum og fjármagninu til þeirra sem minna hafa á milli handanna. Ég tel þess vegna að til þess að við getum búið vel að þeim sem þurfa að reiða sig á samfélagið með fjárhagslega afkomu að þá verðum við að hafa pólitíkina þannig að þessir peningar séu til.