145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[15:53]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni, frummælanda þessarar umræðu, sem og fjármálaráðherra fyrir hans svör við fyrirspurnum þingmannsins.

Ég held að það sé alveg augljóst, og verður örugglega hið sama sem kemur fram hjá þeim sem fylgja mér hér í ræðustól, að við erum öll sammála um að bæta kjör hjá lífeyrisþegum. Ég held að við gerum okkur líka öll grein fyrir því að það er mikið verkefni að snúa við eftir þann harkalega niðurskurð sem var farið í á síðasta kjörtímabili vegna erfiðra aðstæðna í ríkisfjármálum.

Ég vil þess vegna minna á að það sem við höfum verið að gera frá því að við tókum við völdum fyrir rúmum tveimur árum. Ein af fyrstu aðgerðunum sem við fórum í var að taka til baka þær lagabreytingar sem var farið í til að auka skerðingar í almannatryggingakerfinu. Þetta er líka annað árið sem við komum fram með fjárlagafrumvarp þar sem er ekki gert ráð fyrir hagræðingarkröfu á almannatryggingarnar. Það er staðinn vörður um það. Núna sjáum við að bætur almannatrygginga, samkvæmt frumvarpinu, munu hækka um 9,4% á næsta ári. Það þýðir einfaldlega, eins og kom fram í máli fjármálaráðherra, að lífeyrisþegi með heimilisuppbót — eins og verið er að miða við í lagafrumvarpi Samfylkingarinnar, sem býr sem sagt einn — verður samkvæmt þessu með 246 þús. kr. á mánuði. Það kemur einmitt fram hér að lágmarkslaunin eru 245 þús. kr. Bætur munu því á næsta ári fylgja lágmarkslaunum.

Ef við lítum síðan til þeirra hækkana bóta sem hafa þegar komið til í ársbyrjun 2014 og 2015 þá nemur uppsöfnuð hækkun bóta til ársins 2016 16,6%. Á sama tíma erum við að spá því að uppsöfnuð verðbólga yfir þetta tímabil verði 8,7% og við sjáum þannig að við erum auka verulega kaupmátt bótanna.

Við erum síðan að huga að öðrum þáttum sem hv. þm. Árni Páll Árnason (Forseti hringir.) nefndi hér, að því hvernig best sé að breyta kerfi almannatrygginga til framtíðar. Þar þurfum við að huga að, eins og er rætt hér, einföldun og ýmsum kerfisbreytingum. En sú einföldun má ekki bitna á þeim sem hafa minnst á milli handanna á grundvelli almannatryggingakerfisins.