145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[16:00]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að hefja þessa nauðsynlegu og mikilvægu umræðu. Eins og hér kemur fram þá er auðvitað samhljómur í því að það þurfi að bæta kjör eldri borgara og lífeyrisþega þessa lands. Það er alveg ljóst að sá vilji er í þinginu. Það er líka ljóst að við þurfum að endurskoða almannatryggingakerfið, það er mjög mikilvægt til að bæta enn kjörin og einfalda regluverkið. Það hefur komið hér fram, í máli fjármálaráðherra og velferðarráðherra, að bætur hafa á undanförnum tveimur árum hækkað langt umfram verðlag eða sem nemur 8%. Það er auðvitað vel gert en við vitum að við viljum gera betur og sérstaklega þarf að styrkja þá sem lægstar bæturnar hafa eins og lægstu launin og uppi eru áform um að gera það.

Við þurfum líka að einfalda bótakerfið. Ég fór sjálfur í heimsókn upp í Tryggingastofnun í síðustu viku og kynnti mér hvernig bætur eru reiknaðar út og skerðingar og annað slíkt og þetta er ótrúlega flókið og kemur ekki á óvart að eldra fólk, sem fær þessa reikninga heim til sín og uppgjör, treysti þessu varla vegna þess að það er erfitt að skilja það fyrir marga. Við þurfum að breyta því.

Varðandi dvalarheimili aldraðra er mikilvægt að halda þeirri vinnu áfram að fjölga hjúkrunarrýmum. Það er líka mikilvægt að horfa til annarra átta. Ég var á ráðstefnu á Höfn í Hornafirði, Heilsa og heilbrigði, og þar kom fram, hjá öldrunarlækninum Jóni Þór Jónssyni og prófessor Janusi Guðlaugssyni, að við ættum líka að horfa svolítið til þess að auka heilbrigði og heilsu með virkni. Þar mætti spara töluverða peninga í steinsteypu til framtíðar með því að auka þrótt og vellíðan eldri borgara; þeim er að fjölga og þeir eru að eldast og verða betur undirbúnir fyrir lífið fram undan.