145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[16:05]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Herra forseti. Um leið og mig langar til að þakka hv. þingmanni og málshefjanda Árna Páli Árnasyni fyrir að vekja máls á þessari þörfu umræðu langar mig aðeins að vekja athygli á rétti aldraðs fólks til sjálfstæðs lífs. Þar er af nægu að taka en mig langar að fjalla sérstaklega um eitt tiltekið atriði sem er verulega brýnt að taka á, heyrnarskerðingu sem hefur leitt til einangrunar fyrir fjölmarga eldri borgara og skort okkar til að veita þeim þá þjónustu og aðstoð sem þeir þurfa til að nema upplýsingar og vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Nýleg rannsókn í Ástralíu gefur nefnilega til kynna að fimmti hver eldri borgari eigi til að mynda í erfiðleikum með að skilja fyrirmæli heimilislækna sinna vegna verulegrar heyrnarskerðingar. Þetta þýðir að fimmti hver eldri borgari á erfitt með að skilja leiðbeiningar lækna sinna og fyrirmæli um mögulega lífsnauðsynlega lyfjagjöf. Fimmtungur. Þetta er bara ein birtingarmynd þess hvað þessi stóri hópur eldri borgara er að glíma við. Þá er þessum hóp oft meinað að fara í tilheyrandi aðgerðir á borð við kuðungaígræðslur sem lagað gætu heyrn þeirra. Eldri borgarar eru því dæmdir úr leik um áttrætt. Það borgar sig ekki að bæta heyrn þeirra þó að þau geti átt 10–20 góð ár eftir. Grátlegt ranglæti.

Ef vel á að vera ætti þessi hópur að eiga rétt á rittúlkun líkt og þeir sem notast við táknmál eiga rétt á táknmálstúlkun. Samkvæmt öllu þessu ætti Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra að sjá um þessa þjónustu en samkvæmt svörum þeirra við fyrirspurnum mínum nær sjóður þeirra eingöngu til táknmálstúlkunar. Það segir sig sjálft að eldri borgarar sem missa heyrn á sínum efri árum tileinka sér fæstir táknmálsskilning og -notkun. Það er því verulega brýnt fyrir stjórnvöld að kortleggja stöðu heyrnarlausra og heyrnarskertra eldri borgara og rjúfa einangrun þeirra með kerfisbundnum hætti. Það er óboðlegt að eldri borgarar þurfi að reiða sig á ættingja til að gera sig skiljanlega og nema umhverfið sitt. Það segir sig sjálft að það er gjörsamlega fráleitt að svo stór hópur fólks sitji í einangrun og fái ekki tækifæri til að skilja og nema umhverfi sitt. Eldri borgarar glíma víst við nógu mikla erfiðleika þó að skilningur á umhverfinu sé ekki einn þeirra.

Hættum að koma fram við þennan ört stækkandi hóp eldri borgara sem einhverja (Forseti hringir.) afgangsstærð í okkar þjóðfélagi. Það er fyrirlitleg framkoma við það fólk sem byggði upp þetta samfélag.