145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[16:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Undanfarin allmörg ár hafa verið að störfum nefndir á vegum stjórnvalda til þess að endurskoða almannatryggingakerfið. Sú síðasta eða nýjasta af þeim nefndum, sem var skipuð í nóvember 2013 og var lengi vel undir stjórn Péturs heitins Blöndals og er við hann kennd, er nú við það að ljúka störfum og skila af sér til ráðherra. Það er óhætt að segja að það eru í aðalatriðum þrjú stef sem hafa kannski verið ráðandi í starfi þessarar nefndar, sem sagt að einfalda bótakerfið, þ.e. bæði bótakerfið og greiðslukerfi aldraðra og öryrkja, að hækka ellilífeyrisaldur og koma jafnframt á sveigjanlegum starfslokum og að breyta núverandi örorkumatskerfi í starfsgetumat með það fyrir augum að gefa þeim sem hafa möguleika á því að bæta starfsgetu sína í gegnum endurhæfingu kost á því að verða virkir þátttakendur í atvinnulífinu og hinu daglega lífi og bæta þar með lífsgæði sín.

Allir þessir þrír þættir eru gríðarlega mikilvægir. Það er gríðarlega mikilvægt að kerfið sé einfaldað og að það sé gert notendavænna, þannig að þeir sem nýta kerfið séu sér meðvitaðir um rétt sinn og þurfi ekki að vera að velta honum fyrir sér eða spyrjast fyrir um hann daginn langan heldur geti gengið að honum vísum, og að tryggja þeim sem hægt er að veita endurhæfingu til aukinnar starfsgetu tækifæri til þess að (Forseti hringir.) bæta lífsgæði sín til framtíðar.