145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[16:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra og hv. þingmönnum fyrir góða umræðu og mikinn skilning á þessu mikilvæga máli. Vissulega mun kostnaður aukast á næstu árum, hann er óumflýjanlegur. Við viljum ekki hækka tryggingagjald til að standa undir betri kjörum lífeyrisþega en við viljum færa til fjármuni annars staðar úr ríkisrekstrinum.

Það sem er síðan vert fyrir okkur að hafa í huga í allri þessari mynd, sérstaklega þegar öldrun þjóðarinnar er höfð í huga, er að við erum í dag að spara aurinn en kasta krónunni í allt of mörgum tilvikum. Það þarf að styðja betur við heimaþjónustu og heimahjúkrun. Það er viðbótarframlag til heimahjúkrunar upp á 100 milljónir í fjárlagafrumvarpinu en ríkið er að spara sér 80 milljónir vegna þess að fólkið á hjúkrunarheimilunum er með það góðan lífeyri að ríkið hirðir af því lífeyrinn og skammtar því bara rúm 70 þúsund í dagpeninga.

Maður hefði haldið að framlagið til heimahjúkrunarinnar mætti kannski vera aðeins meira en bara akkúrat það sama og ríkið sparar sér með því að hirða lífeyri af fólki.

Vegna þess að hv. þm. Brynhildur Björnsdóttir rakti hér sögu um heyrnarleysi stend ég frammi fyrir svipaðri sögu af föður mínum varðandi blindu. Við erum sem sagt með fólk sem býr heima hjá sér og stendur frammi fyrir því að missa sjónina á næstu missirum en fær ekki nauðsynleg lyf til að koma í veg fyrir ótímabæra blindu vegna þess að Sjúkratryggingar skammta aðgang að þeim. Fólkið mun þá þurfa að flytja inn á hjúkrunarheimili og þar kostar rýmið í rekstri 9 milljónir á ári. Hver er þá sparnaðurinn á bak við svona mannvonsku og furðulegan framgang?

Það er þessi heildarmynd um lífsgæði fólks, lífsgetu fólks, og að fólk sé sjálfbjarga til æviloka, sem ríkið verður að hafa í huga og það er stórhættulegt ef Sjúkratryggingar taka upp á því að reyna að spara með þessum hætti lífsnauðsynleg lyf (Forseti hringir.) sem halda fólki heima og gera því kleift að spara ríkinu fullt af peningum með því að lifa á sínum eigin lífeyri og vera ekki til byrði í samfélaginu.